Fimmtudagur, 19 september 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Vak(n)andi veröld: fyrst bók, svo bíómynd

Rakel

26.ágúst 2015. Tökur eru hafnar á Vakandi veröld, nýrri heimildarmynd um sjálfbæra neyslu.

Framleiðandi myndarinnar er Rakel Garðarsdóttir, annar tveggja höfunda (nánast) samnefndrar bókar, ásamt Margréti Marteinsdóttur, en hún er auk þess forsprakki samtakanna Vakandi sem beita sér gegn sóun mtvæla.

Í myndinni er fylgst með ferðalagi fjölmiðlakonunnar Sigríðar Halldórsdóttur um Evrópu en tökur hófust í Osló 25.ágúst. Beint er sjónum að því hvernig of-framleiðsla,hvort heldur sem er matvæla eða tískuvöru, veldur gegndarlausri sóun. Velt er upp öllum flötum á félagslegum og umhverfislegum afleiðingum framleiðslu, flutninga og neyslu.

vakandi1Kynnirinn fer með áhorfendur í ferðalag til að kanna hvaðan matur okkar og tíska kemur og hvar þetta endar – aðallega í landfyllingum! Áhorfendum verður sýnt hvernig hægt er að breyta venjum okkar og hversu miklu máli það skiptir fyrir jörðina og tilveru okkar á henni.

Neysluhyggja er tröllaukið umhverfisvandamál því við lifum á tímum skyndibita og skynditísku og fleygjum jafnt nothæfum tískuvarningi sem fullkomlega neysluhæfum matvælum á sama tíma og heimurinn sveltur.
“Ætlunin er að jákvæður boðskapur skíni í gegn. Við viljum sýna fram á að um leið og neytendur hafa rankað við sér hafi þeir það í hendi sér að breyta þessu; það eina sem þarf er að vera vakandi,” segja aðstandendur myndarinnar.

Auk Rakelar og Sigríðar eru það Sigríður Bylgja, sérfræðingur í umhverfismálum og félagslegu réttlæti hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Rut Sigurðardóttir, myndatökumaður, sem stand að gerð myndarinnar.