Þriðjudagur, 19 mars 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Mælikvarði mennskunnar

RE resized chapter 2

5.mars 2018. Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur segir sögu barna á flótta frá átökunum í Sýrlandi í nýjustu bók sinni og rammar söguna inn með tilvitnunum í upphafi hvers kafla úr Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Kristin Helga Gunnarsdttir Photo Iceland Red CrossKrístin Helga fékk á dögunum Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna fyrir bókina „Vertu ósýnilegur. Saga Ishmaels” í flokki barna- og unglingabóka.
Sjötugsafmælis Mannréttindayfirlýsingarinnar er minnst á þessu ári, en Kristín Helga segist hafa komist að því við undirbúning og ritun sögunnar að langt sé í land með að ákvæði hennar séu virt.

„Þegar ég lagði af stað í þetta ferðalag í huganum - að fylgja eftir flóttabarni frá Sýrlandi yfir eyðimörk og haf og heimsálfur- þá rann fljótlega upp fyrir mér hve þver-brotin Mannréttindayfirlýsingin á svo mörgum sviðum,” segir Kristín Helga. „Og hún er ekki bara hunsuð í ríkjum með eldfimt stjórnmálaástand, þar sem stríð geysa og lýðræði er ekki fast í sessi. Í flóttamannaneyð nútímans virðast flest vestræn lýðræðisríki eiga afar erfitt með að virða og vinna eftir Mannréttindayfirlýsingunni. Og einmitt þess vegna er hún mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Hún er mælikvarði mennskunnar sem við verðum alltaf að leggja að samfélagsmynd okkar, máta hann eins og snið eða skapalon. Hún lýsir í grunninn hinum raunverulegu landamærum veraldar og er algjört haldreipi í skipulagi samfélags.”

Kristín Helga hefur skrifað fjölda barnabóka og er formaður Rithöfundasambands Íslands. Áður en hún helgaði sig skrifum vann hún um árabil sem fréttamaður á Stöð 2 og Bylgjunni. Þórir Guðmundsson, starfsfélagi hennar frá þeim tíma, og nýráðinn fréttastjóri, tók myndirnar í bókinni af flóttafólki á Miðjarðarhafinu sem Rauði krossinn liðsinnt.

„Ég skrifa barna- og fjölskylduefni- bókmenntir fyrir þá sem eiga eftir að fá þennan hnött í fangið- fyrir manneskjur morgundagsins. Auk þess starfaði ég lengi í erlendum fréttum og kem úr blaðamennsku inn á ritvöllinn. Þannig ákvað kannski gamli fréttamaðurinn að skrifa bók með rithöfundinum. Þetta ferðalag flóttamannsins leitaði á mig- háskaförin sem manneskja þarf að leggja í þegar hún verður að hlaupa af stað, yfirgefa allt, jafnvel með tvær hendur tómar og koma sér og sínum í öruggt skjól.

Fréttir renna framhjá okkur svo hratt. Þær eru brotakenndar, eins og mósaík, orðræðan verður eintóna og orðfæri fréttamanna fjarlægir okkur frá veruleikanum. Ég vildi raða saman þessum brotum svo úr yrði heildstæð frásögn sem segði sögu margra. Eftir því sem sagan mótaðist gerði ég mér meira grein fyrir því hve mikilvægt það var að fylgja sannleikanum, segja raunverulegu sögurnar þótt persónur væru skáldaðar. Það hefði verið virðingarleysi við þetta viðfangsefni, fyrir mig sem vestræna lúxusveru frá Íslandi að ætla að fara að skálda í eyður. Ég lagðist í lestur og rannsóknir, tók viðtöl og byggði að auki á reynslu minni úr fréttamennsku. Þannig ákvað ég að fylgja Ishmael, sem er skáldaður fimmtán ára drengur, og afa hans Jidu á flóttaför. Sú för endar í hælisleit á Íslandi með fölsuð skilríki. Tvær sögur fléttast saman. Saga Ishmaels er sögð áfram og saga Selmu afturábak. Þau eru bæði frá Aleppo, en hún kemst til Íslands sem kvótaflóttamaður ásamt systkinum sínum og móður.”

-En hvaðan kemur titill bókarinnar? Be Invisible Childrens Book UDHR 2018 MAIN
„Þeir sem þurfa að lifa á vígvelli, eins og Aleppo hefur verið og margar aðrar borgir heims, þurfa að þróa með sér þá hæfni að vera ósýnilegir. Lífið gengur út á að afla vista, matar og vatns. Það þarf að halda lífi og það getur verið flókið verkefni að fara þarf langa leið, yfir víglínur, framhjá leyniskyttum og öðrum hættum til að sækja vistir. Svo temur fólk sér skoðanaleysi til að styggja engan og lifa af. Þegar ákvörðunin er tekin um að setja allt sitt í lítinn poka, skipuleggja flóttaför og leggja af stað þarf viðkomandi að vera ósýnilegur. Hann þarf líka að vera það á flóttaför yfir eyðimörk þar sem mannræningjar og stigamenn sitja fyrir og miskunnarlausir smyglararnir. Og ef viðkomandi kemst yfir hafið þá þarf að vera sem ósýnilegastur til að komast upp Evrópu og yfir landamærin. En það merkilegasta er að margir upplifa sig svo ósýnilega gagnvart nýju samfélagi þegar þeir hreiðra um sig á nýjum stað. Það var nú þess vegna sem titillinn valdi sig sjálfur. Ferðin hans Ishmaels gengur út á að vera sem allra ósýnilegastur.

Niðurstaða Kristínar Helgu eftir að hafa lokið rannsókninni að baki bókinni og ritun hennar er sú að Manréttindayfirlýsingin hafi svo sannarlega staðist tímans tönn.

„Hún er mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Sorgin er hve mörg samfélög virða hana að engu. En það gerir hana svo lífsnauðsynlega fyrir fyrir okkur jarðlingana og fyrir mennskuna á þessum hnetti. ,,Allir hafa rétt til að leita og njóta griðlands. “ ,, Enginn skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.” ,, Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra.” Þetta eru svo sjálfsagðar yfirlýsingar sem þó er svo erfitt fyrir mannskepnuna að fylgja. Mannréttindayfirlýsingin er handbók í mennsku og svo eru það alltaf þessir sem lesa aldrei handbókina. “

 Brot úr „Vertu ósýnilegur. Saga Ishmaels”

„Leiðin um Dauðastræti er greið þetta kvöld. Þeir smeygja sér á milli teppa sem hanga hér og hvar þvert yfir götuna til að byrgja leyniskyttum sýn. – Galdurinn er að ímynda sér að maður sé ósýnilegur, Ishmael, sko, þegar þú mætir þessum vopnuðu mönnum. Vertu agnarsmár og ekki horfa í augun á neinum. Flýttu þér þangað sem þú ætlar án þess að hlaupa. Það vekur grunsemdir ef þú hleypur.“

Samskiptamiðlar

facebook32x32 Dblue  twitter32x32 Dblue  YouTube32x32 Dblue
vimeo32x32 Dblue  Issuu dark blue 32  RSS Feed