Fimmtudagur, 22 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Kína vill ekki lengur vera ruslakista heimsins

Garbage Family Sheila Flickr CC BY NC ND 2.0
Kína hefur um langt árabil flutt inn meir en helming af plast-úrgangi heimsins. Kínverska stjórnin hefur hins vegar ákveðið að binda enda á innflutninginn fyrir lok þessa árs.

Vestræn ríki, sérstaklega, verða nú að hugsa upp á nýtt hvað þau ætla að gera við plastið.  Að minnsta kosti 87% af útfluttum plast-úrgangi hefur endað í Kína og eru Japan og Bandaríkin stórtækust. Þetta hefur verið beggja hagur. Útflyjendur hafa fengið borgun fyrir úrganginn sem ella hefði farið í landfyllingar í heimalandinu. Kínversk fyrirtæki hafa fengið aðgang að endurnýttu efni, sem er oft og tíðum ódýrara og krefst minni orku við vinnslu en það sem stendur til boða innanlands.  

Á hinn bóginn er innflutta plastið oft óhrient, illa flokkað eða jafnvel mengað eiturefnum. Og jafnvel þó svo sé ekki, er innflutta plastið oft illa endurunnið. Þrátt fyrir viðleitni kínverskra yfirvalda til þess að efla eftirlit með innfluttu rusli, er að miklu leyti á huldu hvað verður um úrganginn í Kína.  Sumt er endurunnið en sumt er brennt. Endurvinnsluiðnaðurinn era ð mestu í höndum lítilla fjölskyldufyrirtækja sem nota lágtæknibúnað sem mengar gríðarlega. Talið er  að 260 þúsund manns vinni við að flokka og nýta plastið á frumstæðan hátt. 

UNEP Global Waste Management Outlook Til þess að sporna við þessu tilkynnti Kína Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) að það myndi hætta að taka við úrgangsplasti og hvers kyns rusli svo sem pappír, úrgangi stáliðnaðar, afgangsull, ösku, bómull og garni.Rusl-útflutningsríki verða því að leita sér að nýjum útflutningsmörkuðum. Líklegast er að þeir finnist í öðrum suð-austur Asíuríkjum, til dæmis Víetnam eða Indónesíu, því enn er gróðavon í rusl-innflutningi. Hætt er við því að það reynist ódýrara fyrir vestræn ríki að finna ný útflutningslönd en að leysa vandann heima og losa sig við vandann til annara ríkja. Eins og staðan er nú geta ríki sem flytja út rusl ekki fylgst með því hvað gert er við hann í innflutningsríkinu. 

Ríki heims hafa öll samþykkt Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun. Á meðal þeirra er markmið 12 sem er að „tryggja sjálfbæra neyslu og framleiðslumynstur “  og undirmarkmið er að „eigi síðar en árið 2030 verði verulega dregið úr myndun úrgangs með forvarnarstarfi, takmörkun, endurvinnslu og endurnotkun.” „Kostnaður af aðgerðarleysi –áframhaldandi  neikvæð áhrif á heilsu almennings og umhverfisspjöll, vegna stjórnlauss brottkasts rusl og brennslu, er miklu meiri en kostnaður við skynsamlega nýtingu úrgangs,” segir í skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) frá 2015.   „Þetta er alþjóðlega lýðheilsuvá. Það verður að vera í forgangi að grípa til samræmdra aðgerða á heimsvísu, það dugir ekki að grípa til staðbundinna aðgerða á vettvangi hvers ríkis fyrir sig.”

 

Samskiptamiðlar

facebook32x32 Dblue  twitter32x32 Dblue  YouTube32x32 Dblue
vimeo32x32 Dblue  Issuu dark blue 32  RSS Feed