Miðvikudagur, 21 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

SÞ kannar eitraða herstöð á Grænlandi

Camp Century Photo YouTube 
Nýuppgötvuð geislavirk úrgangsefni í yfirgefinni herstöð Bandaríkjanna undir Grænlandsjökli hafa komið til kasta sérstaks erindreka Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.  

Baskut Tuncak, sérstakur erindreki um háskaleg eiturefni heimsótti Grænland og Danmörku í október, eftir umdeilda kvörtun til Sameinuðu þjóðanna, yfir seinagangi við hreinsun eftir bandaríska herinn á Grænlandi.   

Málið snýst um úrgang úr kjarnaofni,  200 þúsund lítra af díselolíu, og ýmsan annan eiturefnaúrgang í herstöð Bandaríkjanna Camp Century. Hún var undir Grænlandsjökli, 240 kílómetra austur af Thule-herstöðinni í Norður Grænlandi. Camp Century var að nafninu til vísindastöð, en gegndi því hlutverki að kanna möguleika á að koma upp færanlegum skotpöllum fyrir kjarnorkuflugskeyti undir jöklinum.  Stöðin var rekin frá lokum sjötta áratugarins til loka þess sjöunda. Vísindarannsókn leiddi í ljós að vegna bráðnunar íssins, væri nauðsynlegt að hefja hreinsunarstarf nú þegar, hálfri öld eftir lokun hennar.  

 Tuncak sagði í viðtali við Fréttabréfið að heimsókn hans undirstrikaði hversu brýn sú skylda væri að hreinsa til eftir herstöðvar. „Það stafar sérstaklega hætta af Camp Century vegna þess að geislavirkur úrgangur hefur verið grafinn undir ísnum í mjög langan tíma,” segir Tuncak. 

Camp Century Photo Youtube2„Yfirvöld virðast fá upplýsingar í smáskömmtum, sem leiðir til óöryggis og óvissu um hvað þar sé nákvæmlega að finna og hvaða afleiðingarnar kunni að vera. Það er þörf á meiri gagnsæi af hálfu Bandaríkjahers,” segir hann og bendir á að nágrannar herstöðva í Japan og Suður-Kóreu hafi glímt við svipaðan vanda.  Áður höfðu yfirvöld í Nuuk og í Kaupmannahöfn skipst á skeytum vegna málsins.  Vittus Qujaukitsoq, sem þá fór með utanríkismál Grænlands helti olíu á eldinn þegar hann gagnrýndi Danmörku fyrir að leyfa veru Bandaríkjahers sem hann sagði að hefði fært Grænlendingum „75 ár af uppsafnaðri gremju og valdaleysi.”

Bandaríkin hétu þvi að hreinsa til þegar Camp Century lokaði en ef marka má fréttir hefur herinn neitað að standa straum af kostnaði. Á sama tíma misstu heimamenn á Grænlandi ábatasama verktakasamninga við Bandaríkjamenn og varð það enn til að auka á gremju heimamanna.

Special Rapporteur Baskut TuncakDeilan harðnaði og grænlenska þingsins krafðist upptöku varnarsamnings við Bandaríkin. Loks sendi Vittus Qujaukitsoq bréf til stofnana Sameinuðu þjóðanna til að kvarta yfir seinagangi og vanefndum í málinu.  En hann gerði það án samráðs við aðra í ríkisstjórninni og fór svo að utanríkismál voru tekin af honum og hann sagði sig úr stjórninni. Bauð hann sig í kjölfarið fram gegn Kim Kielsen, forsætisráðherra til formennsku í Siumut flokknum. Laut hann í lægra haldi, sagði sig úr flokknum og stofnaði eigin flokk, sem stefnir að tafarlausu sjálfstæði Grænlands. 

Tuncak mun afhenda Mannréttindaráðinu skýrslu í september á næsta ári. Hann segir til eftirbreytni að Danir hafi beitt sér til að leysa málið. Hann segir að ábyrgðin fari eftir einstökum samningum, hve miklum upplýsingum hafi verið deilt,og hve mikið allir samningsaðilar vissu. Lögfræðingar ynnu nú að lausn málsins. 

Baskut Tuncak var skipaður Sérstakur erindreki (Special Rapporteur) um áhrif umhverfisvænnar stýringar og urðunar hættulegra efna og úrgangs á mannéttindi árið 2014. 

Samskiptamiðlar

facebook32x32 Dblue  twitter32x32 Dblue  YouTube32x32 Dblue
vimeo32x32 Dblue  Issuu dark blue 32  RSS Feed