Laugardagur, 24 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

UNEP: Norðurheimskautið í hættu

Greenland

Hvatt er til skilvirkrar stjórnunar og varúðar nú er kapphlaup virðist framundan um auðlindir Norðurskautsins ef takast á að vernda viðkvæmt umhverfið.

Þetta er helsta niðurstaða nýútkominnar Árbókar Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UN Environment Programme´s Year Book 2013).

 Sumarísinn á Norður heimskautinu hefur minnkað óðfluga undanfarin ár og met var slegið er hann þakti aðeins 3.4 millljónir ferkílómetra um miðjan september 2012. Það er 18% minna en fyrra sögulega lágmark 2007 og 50% minna en en meðatal níunda og tíunda áratuga 20. aldar. Ís á landi hefur einnig hopað og sífreri þiðnað.

Aðgangur að auðlindum, svo sem gasi og olíu hefur batnað eftir því sem ís og jöklar hopa og því hafa margs konar framkvæmdir aukist og ógna viðkvæmu vistkerfi og dýralífi, segir í skýrslunni.

“Við stöndum nú frammi fyrir því að bráðnun íssins hefur komið af stað kapphlaupi um sömu orkugjafa og ollu bráðnuninni upphaflega,” bendir Achim Steinar forstjóri UNEP á.

Jarðfræðirannsóknastofnun Bandaríkjastjórnar telur að 30% ónýttra birgða jarðgas í heiminum sé að finna á Norðurheimskautinu aðallega undir hafsbotni.

Siglingaleiðir eru einnig að opnast hluta ársins bæði fyrir norðan Rússland (Norðurleiðin) og norðan Kanda (Norðvesturleiðin).Sum ríki telja að Norðurleiðin muni verða sannkölluð “hraðbraut” og spá 40 faldri aukningu skipaumferðar árið 2020. Norðurheimsskautið gæti orðið íslaust um næstu aldamót, árið 2100 en því er oftast spáð að slík geti orðið raunin hluta úr ári fyrir 2035.

Að auki er líklegt að fiskveiðar muni glæðast, þegar ýmsar fisktegundir leita norður, einkum Atlantshafs- og Kyrrahafsþorskur. Samkvæmt einni rannsókn má búast við því að fiskafli á norðurslóðum, þar á meðal á Norðurskautinu aukist um 30 til 70 prósent.

Norðurskautsráðið hefur að mati skýrsluhöfunda miklu hlutverki að gegna í að tryggja ábyrga nýtingu auðlinda. Ísland er meðlimur í ráðinu ásamt Bandaríkjunum. Danmörku (Grænlandi), Finnlandi, Kanada, Noregi og Rússlandi.

Til lengri tíma litið ber að hafa mestar áhyggjur af Grænlandi en bráðnun Grænlandsíssins hefði í för með sér sjö metra hækkun yfirborðs sjávar í heiminum. Engin hætta er þó á slíku í bráð enda tæki bráðnunin margar aldir miðað við núverandi hlýnun jarðar.

Engu að síður hefur bráðnunin aukist hratt og hugsanlega eru núverandi spár of varkárar. Bráðnun Grænlandsíssins og þiðnun sífrera gæti haft meiri háttar afleiðingar á veðurkerfi alls heimsins.

Samskiptamiðlar

facebook32x32 Dblue  twitter32x32 Dblue  YouTube32x32 Dblue
vimeo32x32 Dblue  Issuu dark blue 32  RSS Feed