Þriðjudagur, 24 apríl 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Baráttan um sjaldséða “græna” málma

Rare Earths

Fyrir nokkrum árum var sjaldan minnst á Grænland í alþjóðlegum fjölmiðlum, ekki einu sinni í dönsku blöðunum.

 

Þetta hefur breyst umtalsvert á undanförnum árum og á síðustu misserum hefur grænlenski forsætisráðherrann Kuupik Kleist hitt veraldarleiðtoga á borð við José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og verið gestgjafi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands að ekki sé minnst á Norðurlöndin.

En þetta er ekki allt. Lee Myung-Bak, forseti Suður-Kóreu kom til Grænlands með fjölmennu fylgdarliði í september síðastliðnum og þótt Hu Jintao, forseti Kína heimsækti ekki landið að þessu sinni, er fullyrt að andi landsins hafi svifið yfir vötnum þegar hann kom í opinbera heimsókn til Danmerkur síðastliðið sumar.

"Hu Jintao fór ekki til Danmerkur til að heimsækja Litlu hafmeyna” segir franski fræðimaðurinn Damien Degeorges. “Flestir sérfræðingar telja að þegar Kínverjar líti til Danmerkur, sé það ekki síst með Grænland í huga.”

Þótt borun eftir olíu og gasi undan Grænlandsströndum hafi ekki skilað tilætluðum árangri enn sem komið er, hafa heimamenn úr mörgu öðru að moða.

Sagt er að ein af fyrstu spurningum Hillary Clinton, utanríksiráðherra Bandaríkjanna þegar hún kom til Grænlands árið 2011, hafi verið “Hvað er að frétta af sjaldæfu jarðmálmaunum (rare earths)?”

Jarðmálmarnir sjaldgæfu eru alls sautján mismunandi málmar sem finnast óvíða í vinnanlegu magni. Það er kaldhæðnislegt að ástæðan fyrir því að hægt er nálgast þá nú á Grænlandi má rekja til þess að jöklar hopa af völdum loftslagsbreytinga; en á sama tíma gagnast þeir einkum í því sem kallað er “græna hagkerfið” og er sett til höfuðs sömu loftslagsbreytingum. Þessir málmar eru þannig notaðir í vindtúrbínur og rafmagnsbíla en líka í tölvur, snjallsíma og rafhlöður og meira að segja í stýriflaugar undir kjarnorkuvopnum og nætursjónauka vígamanna.

Tveir “kommisarar” Evrópusambandsins voru líka á höttunum eftir þessum eftirsóttu málmum þegar þeir komu til Grænlands í júní síðasta sumar, degi áður en kínverski forsetinn kom til Danmerkur.

Evrópusambandið hefur þungar áhyggjur af því að Kína hefur nánast einokun á sjaldgæfu málmunum og hefur sett takmarkanir á útflutning.

Engu að síður sagðist forsætisráðherra Grænlands ekki vilja hindra aðgang Kínverja að þessum dýrmætu náttúruauðlindum.

"Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess af Grænlendingum að þeir taki þátt í því að jafna stöðuna á mili stórvelda og gæti hagsmuna sumra á kostnað annara, td. Kínverja,” sagði Kleist.

Auk málmanna er talið að finna megi undir yfirborði jarðar í Grænlandi ýmsa eðalmálma á borð við járn, demanta, gull, demanta, kopar, hvítagull, úran og títan.

Samkvæmt sumum heimildum er talið að Grænland geti fullnægt allt að fjórðungi heimseftirspurnar eftir sjaldgæfu málmunum næstu hálfa öldina. Náma sem Ástralir hyggjast starfrækja fyrir suður-kóreskt fé er talin búa yfir allt að tíu prósentum af heimsforðanum af málmunum sjaldséðu.

Samskiptamiðlar

facebook32x32 Dblue  twitter32x32 Dblue  YouTube32x32 Dblue
vimeo32x32 Dblue  Issuu dark blue 32  RSS Feed