Þriðjudagur, 24 apríl 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Ísland ekki með í friðargæslu SÞ

NordicPeacekeeper

Sameinuðu þjóðirnar reka fjórtán friðargæslusveitir í heiminum auk sérstakrar pólitískrar sveitar í Afganistan.

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna á Austur Tímor (UNMIT) lauk hins vegar hlutverki sínu um síðustu áramót. Í friðargæslunni eru meir en 110 þúsund manns, jafnt einkennisklæddir sem óbreyttir borgarar auk sjálfboðaliða. Norðurlöndin leggja sitt af mörkum og leggja til 350 manns víða um heim, auk sveitarinnar á Austur Tímor. Enginn Íslendingur er þessa stundina við friðargæslu á vegum íslenska ríkisins á vettvangi Sameinuðu þjóðana, þótt nokkrir starfi við hana fyrir reikning sjálfra samtakanna.

Svo dæmi séu tekin eru norrænar sveitir í Afríku sem hluti af friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna í Líberíu (UNMIL), í Kongó (MONUSCO) og í Suður-Súdan (UNMISS). Tveimur þessara sveita stýra norrænar konur; Karin Landgren fer fyrir Líberíu-sveitinni og Hilde Frafjord Johnson, frá Noregi sem fréttabréf UNRIC ræddi við í síðasta tölublaði, er við stjórnvölinn í Suður-Súdan. 70 Norðurlandabúar eru þar að störfum. Starf þeirra felst í því að tryggja og öryggi í sessi og hjálpa ríkisstjórn yngsta ríks heims að skjóta stoðum undir þróun. Mörg ljón eru í veginum og spenna er á landamærunum við Súdan þannig að þörf er á friðargæslu næstu mánuði að minnsta kosti.  

NordicUN-MAP

Ísland hefur ekki her en hefur lagt friðargæslu lið með öðrum hætti, síðast með því að leggja til lögreglumenn til Líberíu-sveitarinnar. Öll hin Norðurlöndin hafa tekið þátt í friðargæslu í Mið-Austurlöndum (UNTSO). Finnland hefur að auki leikið stórt hlutverk í Líbanon (UNIFIL) en nærri lætur að fjöldi finnskra hermanna þar sé helmingur norræna framlagsins til friðargæslunnar. Norðurlandabúar voru einnig fjölmennir í hinni skammlífu sendisveit til Sýrlands (UNSMIS) en henni stýrði norski hershöfðinginn Robert Mood. Sveitin var leyst upp eftir að átök mögnuðust.

Auk fyrrnefndra verkefna eru Finnar og Svíar þátttakendur í eftirliti Sameinuðu þjóðanna í Indlandi og Pakistan (UNMOGIP) sem fylgist með að vopnahlé sé virt á milli ríkjanna tveggja í hinu umdeilda héraði Jammu og Kashmir.

Fleiri smærri verkefni eru hér og þar í heiminum. Einn Norðmaður er í Kosovo (UNMIK), einn Svíi á Haiti (MINUSTAH) og einn Dani í Afganistan (UNAMA). Danir taka svo þátt í verkefni Sameinuðu þjóðanna undir bandarískri stjórn í Kóreu en þar er aðeins einn maður að taka þátt í að fylgjast með vopnahléi við vopnahléslínuna.

Að auki leggja svo Norðurlöndin friðargæslu NATO lið, oft í samvinnu við SÞ, þar á meðal í ISAF í Afganistan og í Kosovo og á austurodda Afríku. Tekið skal fram að þetta yfirlit á við um þá Norðurlandabúa sem eru sendir og kostaðir af ríkjunum sjálfum en til viðbótar eru svo einstaklingar sem vinna beint fyrir Sameinuðu þjóðirnar.

Samskiptamiðlar

facebook32x32 Dblue  twitter32x32 Dblue  YouTube32x32 Dblue
vimeo32x32 Dblue  Issuu dark blue 32  RSS Feed