Mánudagur, 26 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Norræna módelið ekki jafn álitlegt og áður?

aaltolaNorðurlönd munu eiga enga aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í að minnsta kosti áratug eftir að Finnland tapaði kosningu til ráðsins á Allsherjarþinginu 18. október.

 

Norðurlöndin fimm hafa um langt skeið sameinast að baki framboðs eins þeirra í senn, annað hvort kjörtímabil, innan ríkjahóps Vestur-Evrópu og annara ríkja (Ástralía, Kanada og svo fr.) Fimm ríki eru kosin hverju sinni til tveggja ára í senn. Fimmtán ríki eiga aðild að ráðinu, en þar af eiga stórveldin fimm fast sæti.

Tvö norræn ríki í röð hafa nú lotið í lægra haldi og því má velta fyrir sér hvort sameiginlegt norrænt framboð eigi framtíð fyrir sér.

Áður höfðu Svíar tapað kosningu til Öryggisráðsins 1992. Samkvæmt hefð er Noregur næst í röðinni og býður sig fram að óbreyttu fyrir hönd Norðurlanda árið 2016.

Stjórnmálafræðingurinn Dr. Mika Aaltola hefur verið áberandi í umræðunni um framboð Finnlands til Öryggisráðsins. Aaltola er verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Finnlands. Hann spáir í viðtali við fréttabréfið að einstök norræn ríki kunni að freistast til að bjóða sig fram til Öryggisráðsins upp á eigin spýtur eftir hrakfarir Finna og Íslendinga. Emilia Honkasaari ræddi við Dr. Aaltola.

Hvers vegna skilaði framboð Finna ekki tilætluðum árangri?

Framboðið til Öryggisráðsins naut almenns stuðnings í Finnlandi. Takmarkið náðist ekki og það grefur undan alþjóðlegri stöðu Finnlands. Margar ástæður hafa verið nefndar í opinberri umræðu. Ein þeirra sem minnst hefur verið rætt um er sú að norræna módelið er ekki jafn álitlegt og áður.

Tækifæri Finnlands til að ná kjöri til Öryggisráðsins byggir á norrænu samkomulagi. Sögulega hefur þessi aðferð virkað vel, en síðustu tvo áratugi hafa Svíþjóð, Ísland og Finnland beðið ósigur. Þetta er mikil breyting og bendir til minnkandi áhrifa Norðurlanda.

Hver voru helstu þemun og hvernig kynnti Finnland sig?

Tvö þemu voru miðlæg í kosningabaráttu Finnlands en þau voru réttindi kvenna og lausn átaka. Þetta eru þemu sem eiga djúpar rætur á norðurslóðum. Finnland, líkt og hin norrænu ríkin, er réttilega stolt af sínu framsækna samfélagi. Allt eru þetta einsleitar þjóðir sem búa við velmegun og frið innanlands. Við erum stolt af því að Finnland og hin Norðurlöndin eru á toppnum nánast alls staðar, hvort heldur sem er í menntun eða jafnrétti kynjanna, þegar Sameinuðu þjóðirnar birta tölfræði sem þær hafa tekið saman.

Sjálfsmynd Finna er sú að Finnland sé norrænt ríki sem sé á “toppi heimsins” hvort heldur sem er í landfræðilegum skilningi eða þróunarlegum. Heimurinn hefur hins vegar breyst og er fjölbreyttari en áður. Nú er boðið upp á fleiri þróunarmódel eins og dæmi Kína og Brasilíu sýna og sanna. Sú hugmynd er farin að virka gamaldags að það sé aðeins ein leið til þróunar sem hafi að markmiði hið norræna velferðarsamfélag. Þrátt fyrir þetta byggir norræn sjálfsmynd Finnlands á þessari hugmynd. Við trúum því staðfastlega að við séum heiminum fyrimynd. Þessi bjargfasta trú virkar fráhrindandi á sum önnur ríki.

Hvaða hlutverki geta Norðurlönd leikið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hvaða málefni ættu þau að setja á oddinn?

Það er þess virði að reyna að leita lausna á deilum og átökum. En það kann að virka hrokafullt á sífellt fleiri þjóðir að klifa á þessu þema. “Hvað heldur Finnland að það sé eiginlega?”, kann einhver að spyrja.  Miðlægt þema í kosningabaráttu Ástralíu var að efla stöðu smáríkja. Þetta er augljóslega mikilvægt þema, ekki síst vegna þess að meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna eru smáríki. Finnland er líka smáríki en jafnvel þótt við viljum gjarnan vera stórveldi í lausn átaka þá höfum við takmörkuð úrræði. Við komumst heldur ekki langt á því að styðja kvenréttindi enda er það ekki sameiginlegt markmið allra ríkja.

Norræna módelið var eftirsóknarvert á tímum Kalda stríðsins sem hlutlaus þriðji kostur á milli blokkanna tveggja. Þetta er ekki jafn eftirsóknarverður kostur lengur og því ætti að endurnýja módelið í takt við breytta tíma. Eins og staðan er í dag kunna Norðurlönd að virka eigingjörn og vilja troða sínum eigin árangri upp á aðra.

Norðurlöndin hafa leikið stórt hlutverk innan Sameinuðu þjóðanna. Uppbygging samtakanna er hins vegar arfleifð Síðari heimsstyrjaldarinnar og Kalda stríðsins. Samtökin hafa oft reynst haldlaus andspænis stórum hnattrænum áskorunum og því ber að færa þau í átt til nútímans. Spurningin er sú hvort Norðurlöndin séu reiðubúin til að vera í fylkingarbrjósti aflvaka nútímavæðingar.

Hvaða áhrif telur þú að ósigur Finnlands kunni að hafa?

Það er hætta á því einstök norræn ríki telji hag sínum betur borgið með því að bjóða sig fram til Öryggisráðsins upp á eigin spýtur án sérstaks samráðs. Þetta myndi grafa undan norrænni samsemd, ekki endurnýja hana. Þessa stundina er finnsk utanríkisstefna reist á mörgum ólíkum stoðum, svo sem Evrópustefnu, þróunarsjónarmiðum, öryggismálum og málefnum Sameinuðu þjóðanna. Stefnumiðin rekast stundum á innbyrðis og það vantar heildarstefnu eða samræmingu. Í stað þess að klifa á eigin ágæti ættum við að halda því á lofti að við séum norrænt ríki sem hafi kjark og þor til þess að beita sér af fullu afli í málefnum sem séu öllum ríkjum sameiginleg og mikilvæg.

Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org

Samskiptamiðlar

facebook32x32 Dblue  twitter32x32 Dblue  YouTube32x32 Dblue
vimeo32x32 Dblue  Issuu dark blue 32  RSS Feed