Þriðjudagur, 19 nóvember 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Velferð barna í ríku löndunum: Holland á toppnum, Bretland á botninum

14. febrúar 2007. Í dag kynnir UNICEF skýrslu um velferð barna og ungmenna í þeim löndum sem eru efnahagslega best sett í heiminum, „An overview of child well-being in rich countries“.

Í ljós kemur að heilsufar barna og ungmenna á Íslandi er gott og lendir Ísland í öðru sæti á eftir Svíum í þeim þætti skýrslunnar. Ísland er í meðallagi í menntamálum en athygli vekur að um 10% 15 ára ungmenna á Íslandi eru einmana og finnast þeir utangarðs í samfélaginu.


Skýrslan tekur tillit til sex þátta þegar velferð barna og ungmenna er mæld, þ.e. efnahagsleg gæði, heilsufar og öryggi, menntun, vina- og fjölskyldutengsl, áhættuhegðun og tilfinning ungmenna um eigin vellíðan. Þessir sex þættir gefa góða heildarmynd af lífi barna en ekki er hægt að dæma um velferð barna út frá aðeins einum þætti.


Skýrslan sýnir fram á að meðal allra 21 OECD landanna þurfi að gera breytingar og að ekkert landanna sé leiðandi í öllum sex þáttunum.


„Öll löndin hafa einhverja veikleika sem verður að taka á,“ sagði Marta Santos Pais forstjóri Innocenti, rannsóknamiðstöð UNICEF, sem vann að gerð skýrslunnar. „Enginn einn þáttur gefur lýsandi dæmi um velferð barna í heild sinni og mörg OECD landanna standa sig mjög mismunandi eftir mismunandi þáttum.“


Lönd Norður-Evrópu standa sig vel
Samkvæmt skýrslunni standa lítil Norður-Evrópuríki sig best og eru efst á listum í helmingi þáttanna. Velferð barna rís því hæst í Hollandi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi en á botninum sitja Bandaríkin og Bretland. Ísland stendur sig almennt vel líka, en tölulegum upplýsingum frá Íslandi er ábótavant í mörgum þáttum og er því staðan hér ekki sambærileg í öllum tilvikum.


Það eru engin tengsl milli heildarlandsframleiðslu á íbúa og velferðar barna. Í Tékklandi, til dæmis, er velferð barna meiri en í mörgum öðrum ríkari Evrópulöndum. Ekkert landanna er í þriðju efstu sætunum í öllum sex þáttunum sem mældir voru.


Staða barna og ungmenna á Íslandi
Þar sem heilsufar barna og ungmenna var mælt er Ísland í öðru sæti á eftir Svíþjóð. Í þessum þætti skýrslunnar var tekið tillit til tíðni ungbarnadauða, hlutfalls barna sem fæðist undir meðalþyngd, bólusetningar barna gegn helstu barnasjúkdómunum og dauðsfalla vegna slysa, sára, morða eða sjálfsvíga. Norðurlöndin eru öll í tíu efstu sætum listans, en Bandaríkin og Nýja-Sjáland eru langt undir meðaltali. Ísland er í efsta sæti yfir heilsu ungabarna og er með lægstu tíðni ungbarnadauða í heimi. Það sem dregur Ísland helst niður virðist vera bólusetningar, en þar er Ísland í 12. sæti. Bólusetningar geta sýnt fram á hversu vel er hugað að heilsugæslu ungra barna. Ísland er í 5. sæti yfir dauða vegna slysa og sára ungmenna undir 19 ára.


Þegar kemur að menntun er Ísland miðlungs, þ.e. hvorki fyrir ofan eða neðan meðallag. Þar var tekið tillit til læsi, stærðfræðigetu, vísindakunnátta, hlutfalls 15 til 19 ára ungmenna sem eru í skóla, hlutfall 15 til 19 ára sem eru ekki í skóla eða í annars konar þjálfun, og hlutfall þeirra 15 ára ungmenna sem búast við að fá starf sem krefst lítillar kunnáttu. Belgía er í efsta sæti, ásamt Kanada og Póllandi, en Portúgal, Ítalí og Austurríki raða sér í neðstu sætin.


Nokkuð vantar upp á tölur frá Íslandi í þeim þætti þar sem mæld voru vina- og fjölskyldutengsl. Þar kemur hins vegar í ljós að yfir 90% 15 ára ungmenna borða oft í viku (e. several times) með foreldrum sínum. Þar er Ísland í öðru sæti á eftir Ítalíu, sem er þekkt fyrir sterk fjölskyldutengsl. Hins vegar segjast aðeins um 44% 15 ára ungmenna að foreldrar þeirra setjist oft niður með þeim til að spjalla. Það gæti kannski útskýrt afhverju um 10% íslenskra ungmenna séu einmana og finnast þau utangarðs í samfélaginu. Í samanburði við mörg önnur lönd er þetta nokkuð hátt hlutfall þar eð önnur lönd eru nær 5% hlutfalli. Í þeim þætti voru ungemnni sjálf látin meta eigin vellíðan og voru þau spurð hvort þau væru sammála þremur fullyrðingum, þ.e. mér finnst ég skilin útundan, mér líður skringilega og utangarðs, og ég er einmana.Alþjóðlegur samanburður nauðsynlegur
Santos Pais sagði að alþjóðlegur samanburður væri til að prófa hversu vel þjóðir efna loforð sín um að tryggja öllum börnum rétt, fjárfesta í velferð þeirra og fara eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Þjóðarleiðtogar geta ekki sagst vera að búa eins vel um börnin sín og mögulegt væri ef að önnur sambærileg lönd í svipaðri efnahagslegri stöðu væru ekki að standa sig betur. Þetta er það sem skýrslunni er ætlað að sýna fram á.“Fyrsta skrefið
Þessi Innocenti skýrsla er ætlað að vera fyrsta skrefið í að fylgjast með og skrásetja velferð barna í OECD löndunum. Vankantar geta þó verið á tölulegum upplýsingum sem þýðir að ekki sé fylgst með mörgum mælanlegum þáttum í löndunum sjálfum. UNICEF vonar að þessi skýrsla komi til með að þrýsta á yfirvöld um að safna gögnum um velferð barna í sínu landi og koma þeim á framfæri. (byggt á fréttatilkynningu Íslandsdeildar UNICEF)


Sjá nánar: UNICEF.is

Alþjóða salernisdagurinn

19.nóvember 2019