Mánudagur, 23 september 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Kynslóð lausna - ekki vandamála

Climate March Brussels Photo UNRIC

4. apríl 2019. Það er ekki á hverjum degi sem einn af æðstu mönnum heims hrósar ungmennum fyrir að skrópa í skólann, en það gerði António Guterres, oddviti Sameinuðu þjóðanna nýverið.

Í blaðagrein sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skrifaði lauk hann lofsorði á nemendur sem skrópuðu í skólann til þess að ganga fylktu liði til að krefjast aðgerða í loftslagsmálum.

Climate March Brussels 3„Þessir skólabörn hafa skilið það sem hefur farið framhjá eldra fólki: að við erum í kapphlaupi við tímann og erum að tapa. Tíminn til að grípa til aðgerða era ð renna út. Við höfum ekki þann munað að geta beðið. Frestanir eru næstum jafnhættulegar og að afneitun.”

Loftslagsaðgerðir ungmenna eiga rætur að rekja til Svíþjóðar en þar fór hin 16 ára gamla Greta Thunberg í verkfall á föstudegi og settist á tröppur við sænska þingið með skilti sem á stóð „verkfall fyrir loftslagið.” Fyrsta föstudaginn var hún ein en smátt og smátt fjölgaði þeim sem slógust í hópinn og nú hafa þúsundir ungmenna um allan heim tekið þátt í loftslags-verkföllum.

Í desember síðastliðnum var Thunberg boðið á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Katowice. Þar sakaði hún leiðtoga heimsins um að haga sér eins og ábyrðgarlausir krakkar. Nýlega var hún tilfnefnd til friðarverðlauna Nóbels.

Meir en ein milljón hefur slegist í hópinn frá því Thunberg settist á tröppurnar. 15.mars efndu ungmenni til loftslagsmótmæla á 2000 mismunandi stöðum í 125 rikjum. Hvort heldur sem er í Nýja Sjálandi eða Suður-Kóreu, Indlandi eða Íslandi. Agla Elín Davíðsdóttir, þrettán ára er ein af þeim sem hafa mætt reglulega á Austurvöll á föstudögum til að krefjast aðgerða.

„Viðbrögð hafa verið mjög góð, flestir foreldra vina minna styðja okkur og meira að segja kennarar líka, þótt við séum að skrópa í skólann.”

Elin Agla ungmennaráð1Agla Elín segir að þetta átaka hafi orðið til þess að minnsta kosti í hennar bekk og skóla að krakkar hafi farið að tala um loftslagsmál. „Þetta skiptir mig og vini mína miklu máli. Fólk heldur að börn hafi ekki endilega áhuga á þessu og sé ekki upplýst um þetta, en það er ekki rétt. Það er fullt af börnum vilja breytingar og eru að berjast fyrir þessu.

Helsta krafa unga fólksins er að stjórnmálamenn grípi til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að staðið verði við ákvæði Parísarsamkomulagsins um að hiti á jörðinni hækki ekki um meir en eina og hálfa gráðu miðað við fyrir iðnbyltingu.

Vísindamenn sem fylgjast með því hvort ríki séu á réttri leið í að uppfylla skuldbindinar sínar á vefsíðunni Climate Action Tracker https://climateactiontracker.org/ telja að aðeins tvö ríki Marokkó og Gambía uppfylli skilyrði. Bandaríkin og Rússland eru gagnrýnd fyrir algjört tómlti og meira að segja Evrópusambandið hlýtur ekki náð fyrir augum Climate Action Tracker.

Hugsanlega hreyfa mótmæli ungmennanna við veraldarleiðtogum. „Það er sögulegt að ungt fólk fylki liði að baki loftslagsaðgerðum. Það er okkur að þakka að hreyfing er komin á hlutina,” segir Nicolas frá Liege, einn af skipuleggjendum aðgerða í Belgíu í samtali við Liege. Belgísk ungmenni voru á meðal hinna fyrstu sem tóku upp merki Thunberg utan Svíþjóðar.
Það er ekkert nýtt lengur að hreyfingar á borð við þessa fari eins og eldur í sini á mili landa þökk sé samskiptamiðlum. Skemmst er að minnast #MeToo og arabíska vorsins.

Anuna de Wever, sextán ára gömul belgísk stúlka er orðin eitt af andlitum hreyfingarinnar í heimalandi sínu. Hún las um Gretu Thunberg á netinu og deildi skilaboðum hennar á myndbandi á samskiptamiðlum. Hún flutti sjálf ræðu 15.mars í aðgerðunum í Brussel og hlýddu 30 þúsund manns á hana.

„Við biðjum stjórnmálamenn um að minnast þess að við erum kynslóð sem stöndum frammi fyrir lífshættulegri vá. Nú er kokminn tími til að þeir sýni hugrekki!,” sagði hún í ræðunni.
„Námsmenn fylkja liði gegn loftslagsvánni, vísindamenn gera það sama og meira að segja ömmur og afar. Hvar eru stjórnmálamennirnir,” hrópaði hún í hljóðnemann og uppskar lófatak þúsunda fylgismanna.

Ungmenni á borð við Gretu og Anuna hafa náð eyrum stjórnmálamanna og hafa verið boðuð á fundi á æðstu stöðum. Veraldarleiðtogar hafa viðurkennt að ekki sé nóg að gert til að vernda umhverfið.

„Minni kynslóð hefur mistekist að koma með fullnægjandi svar við stórbrotnum áskorunum. Unga fólkið tekur því þunglega. Það er engin furða að það sé reitt,” skrifaði Guterres í grein sinni.Climate Anuna de Wever Facebook Live UNRIC

Þótt margir málsmetandi karlar og konur hafi hrósað ungmennunum og tekið undir málstað þeirra, að ekki sé minnst á fjölmiðlaumfjöllunina, hafa raunhæfar tillögur látið á sér standa.

“Það er mikilvægt að við leggjum öll okkar lóð á vogarskálarnar í þágu umhverfisins, en það er til lítils á meðan haldið er áfram að dæla peningum í iðnað sem byggir á notkun jarðefnaeldsneytis,” sagði hin sextán ára gamla Anuna de Wever í samtali við UNRIC.

Anuna er ekki ein um að fyllast gremju og krefst eins og margir annara mótmælenda um viða veröld að stjórnmálamenn axli ábyrgð og marki braut heimsins í átt til sjálfbærrar þróunar.
„Við þurfum vegvísi yfir það sem gera þarf til þess að fara í rétt átt,” sagði Ali, sextán ára, einn af ungmennunum í mótmælunum í Brussel við UNRIC. „Það þarf aðgerðir og stefnumörkun til að leiða okkur í átt til grænni veraldar”.

Framtíðin mun skera úr um hvort raunhæfar aðgerðir birtast við sjóndeildarhringinn. En verður áframhald á þessari hreyfingu?
„Þessi hreyfing á einfaldlega eftir að stækka, þetta er rétt að byrja í sumum löndum. Kannski er þetta mesta byltingarhreyfing sögunnar. Mín kynslóð ætlar að vera hluti af lausninni, ekki vandamálinu,” segir Anuna.

Á að halda þessu áfram? „Já“, segir Agla Elín Davíðsdóttir, „alveg þangað til stjórnvöld gera eitthvað í málinu og draga meira losun á gróðurhúsalofttegundum.“

Myndir: Efstu tvær myndirnar eru af loftslagsmótmælum í Brussel (UNRIC), því næst sést Agla Elín (í hvítu) við hlið forsætisráðherra á fundi Ungmennaráðs Heimsmarkmiðanna með ríkisstjórninni og loks Anuna de Wever.

Greinin birtist fyrst í mars-útgáfu Norræna fréttabréfs UNRIC. 

Alþjóðlegur dagur mannúðar

19.ágúst 2019