Mánudagur, 23 september 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Svalinn að hverfa á Svalbarða

 svalbard

28.mars 2019. Svalbarði er sennilega eina byggða ból í heimi þar sem fjöldi manna og ísbjarna er álíka mikill eða þrjú þúsund af hvorri tegund.

Nýja Álasund á Svalbarða er nyrsta þorp heims. Þar er íbúum skylt að bera riffil utan dyra til að verjastd ísbjörnum. Hins vegar stafar ísbjörnunum í raun miklu meiri hætta af mönnum þó ekki endilega af þeim sem þar búa.

Svalbard 1Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hægt og bítandi að kippa fótunum undan tilveru bjarnanna. Selum fækkar vegna minnkandi hafís og þar með missa birnirnir af sinni aðalfæðutegund.

Hlýnun er meiri í kringum heimsskautin en meðaltali á jörðinni.  Í nýrri útttekt sem tekin var saman undir forystu norsku veðurstofunnar er því spáð að meðalhiti á Svalbarða kunni að hækka um tíu gráður fyrir lok þessarar aldar.

„Meðalhiti á Svalbarða hefur ekki verið eins hár og nú í 12 þúsund ár,“ segir Inger Hanssen-Bauer, aðalhöfundur úttektarinnar í viðtali við UNRIC.

 Hiti hefur þegar hækkað um fimm gráður síðan 1980. Reiknað er með að úrkoma aukist um 65% sem hefur jafnvel enn meiri áhrif á Svalbarða en annars staðar vegna sífrerans.

 „Annars staðar myndi vatnið finna sér farveg en þar sem landið er frosið flýtur vatnið ofan á og myndir risastóra polla,” útskýrir Hanssen-Bauer á.

Fyrir örfáum áratugum var Kongsfjörðurinn fyrir utan Nýja Álasund fullur af ísum en nú sjást aðeins örfáir dvergjakar úr skriðjöklum á floti á stangli.

 Kofarnir sem hýsa íbúana hafa verið fluttir frá ströndinni. Áður fyrr var lítill sem enginn öldugangur á frosnum firðinum, en með brotthvarfi ísins ganga öldur á land.

Svalbard2 Stærstur hluti íssins í kringum Svalbarða er horfinn. Hitastigi sjávar hefur hækkað nokkuð og nýjar tegundir á borð við makríl hafa skotið upp kollinum.

Aðeins 30-35 manns búa í Nýja Álasundi að staðaldri en á sumrin fjölgar þeim og íbúatalan kemst yfir eitt hundrað. Þorpið hýsir alþjóðlega vísindastarfsemi og kennir margra grasa því. Ekki er óalgengt að sjá Sikha með túrbana í hópi indversku vísindamannanna og kínverska rannsóknarstofnunin minnir á uppruna sinn með hefðbundnum kínverskum styttum af ljónum.

Svalbard 19th century Svalbarði hefur laðað til sín vísindamenn um margra alda skeið. Í lok nítjándu aldar kom franskur vísindaleiðangur undir stjórn Pauls Gaimard tvívegis til Svalbarða, skömmu eftir að hafa sótt Ísland heim. Auk vísindamanna voru listamenn með í för og má sjá á verkum þeirra hversu miklu meiri ísinn og snjórinn var fyrir nærri tveimur öldum.

Svalbarði er eyjaklasi nokkurn veginn miðja vgu milli meginlands Noregs og Norðurheimskautsins. 60% af yfirborðinu er þakið ís og snjó. Norðmenn ráða yfir Svalbarða í krafti alþjóðlegs sáttmála frá 1920. Allir sem skrifað hafa undir sáttmálanna hafa  jafnan rétt til stunda atvinnustarfsemi. Auk Norðmanna, hafa Rússar stundað námavinnslu á Svalbarða.

 Öldum saman voru eyjarnar bækistöðvar hollenskra, franskra, baskneskra, enskra og danskra hvalveiðimanna. Sumir þeirra báru þar beininn og eru grafnir í sífreranum. Fyrir 20 árum voru lík fórnarlamba spænsku veikinnar í lok fyrri heimstyrjaldarinnar grafin upp til þess að taka úr þeim sýni tili að rannsaka veikina.

 Ef meðalhitinn verður um null gráður, eins og útlit er fyrir, er augljóst að ganga fer á sífrerann. Í augnablikinu hafa íbúarnir þó minnstar áhyggjur af því hvort lík fórnarlamba spænsku veikinnar þiðni og heldur ekki af fyrirsjáanlegri losun mýragas (metan). 

Þiðnun myndi beinlínis grafa undan mannvirkjum og er reyndar þegar farin að gera það.

„Undirstöður eru hreinlega farnar að sökkva, þannig að meiri háttar aðgerða er þörf,” segir Hanssen-Bauer hjá norsku veðurstofunni. Hún bendir á að þessu fylgi aukin hætta á aurskriðum og veðrun í kjölfar þiðnunar. Aurskriður og snjóflóð hafa þegar valdið usla í stærsta bænum, Longyearbyen og kostað mannslíf.

Frjókornageymslan í borginni er þekkt um allan heim. Henni var komið á fót til að koma eintaki af öllum frjókornum allra jurtna heims á tryggan stað ef allt færi til andskotans í heiminum af völdum hamfara á borð við loftslagsbreytinga. Það er því kaldhæðnislegt að loftslagsbreytingar ógna nú þessum greiðastað frjókornanna. Gripið hefur verið til ráðstafanna vegna hækkandi hitastigs til þess að tryggja að hitinn haldist undir frotsmarki í birgðageymslunni.

 Fram á 20.öld var Svalbarði kallaður Spitzbergen eftir stærstu eynni, þar til Norðmenn fengu yfirráðin. Svalbarðanafnið kemur fyrst fyrir í íslenskum annál frá 12.öld, en vera kann þó að þar sé átt við Jan Mayen. Svalbarði vísar auðvitað til kaldrar strandar en ef hitinn hækkar um tíu gráður fyrir loka aldarinnar, er hætt við að kaldaströndin standi ekki lengur undir nafni.

Myndir: Christian Aslund/Norwegian Polar Institute, UN Photos og úr La Recherche-leiðangrinum

Alþjóðlegur dagur mannúðar

19.ágúst 2019