Laugardagur, 19 janúar 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Síðustu vonir Palestínumanna gætu slokknað

 UNRWA Press conference
1.febrúar 2018. Pierre Krähenbühl, forstjóri UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálparinnar, segir að allt verði gert til þess að halda áfram starfi Sameinuðu þjóðanna í þágu palestínskra flóttamanna þrátt fyrir umtalsverðan niðurskurð framlaga Bandaríkjamanna.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að skólar og heilsugæslustöðvar haldi áfram störfum,“ sagði Krähenbühl á blaðamannafundi hjá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Brussel. „Við óttumst að ella slökkni síðustu vonir milljóna palestínskra flóttamanna sem okkur hefur tekist að halda á lífi.“

Forstjórinn hefur átt fundi með Federica Mogherini, utanríkismálstjóra Evrópusambandsins og sótt aukafund fjárveitendahóps fyrir Palestínu sem Norðmenn og Evrópusambandið veita forystu.
Heimsókn Krähenbühl er liður í viðleitni til þess að afla alþjóðlegs stuðnings eftir að Bandaríkin minnkuðu fjárstuðning sinn úr um 350 milljónum Bandarríkja árlega og niður í hugsanlega í 60 milljónir.
Þetta er verulegt áfall því árleg útgjöld URNWA eru um 1.3 milljarðar dala. UNRWA ber ábyrgð á aðstoð og vernd 5.3 milljóna palestínskra flóttamanna í Líbanon, Sýrlandi, Jórdaníu, vesturbakka Jórdanar og Gasa-svæðinu.

Krähenbühl sagðist hafa þungar áhyggjur af því að „engar pólitískar lausnir sæjust lengur við sjóndeildarhringinn.“
„Palestínskir flóttamenn, hvar sem þeir eru, geta ekki skírskotað til neins pólitísks ferlis, sem getur fært þeim von um að þeir geti þokast fram á veginn,“ sagði forstjórinn á blaðamannafundinum.

UNRWA1„Á sama tíma og engar pólitískar lausnir eru í sjónmáli, sér fólk litla framtíð fyrir sig persónulega.“
Auk skorts á rafmagni og rennandi vatni, glíma íbúar Gasasvæðisins til dæmis, við fjölmarga erfiðleika, ekki síst mikilla takmarkana á ferðafrelsi, enda hefur svæðið verið í herkví Ísraelsmanna í áratug og margir upplifað þrjú stríð á þeim tíma.

Krähenbühl segist óttast afleiðingar félagslegrar og andlegrar angstar íbúanna.
„Þegar við þetta bætist heimsmet í atvinnuleysi ungs fólks, 65%, þá er engin furða að ástandið sé eldfimt, alvarlegt og þungur baggi andlega.“

„Þetta sambland skorts á pólitískum og persónulegum framtíðarmöguleikum hefur áhrif á allan heimshlutann og ég skil ekki hvernig nokkrum manni getur dottið í hug að þetta ástand auki öryggi Ísraela, Palestínumana, Egypta eða annara.”
Frostjórinn ýtti úr vör neyðarákalli þar sem farið er fram á alls 800 milljóna framlög til að UNRWA geti haldið áfram neyðaraðstoð í Sýrland og á herteknu svæðunum.

Áður hafði UNRWA hrundið af stað alheims fjársöfnun sem einnig nær til almennings sem ber heitið #DignityIsPriceless. Markmiðið er að safna 500 milljónum dala.