Föstudagur, 20 apríl 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Áhafnir í lykilstöðu til að upplýsa mansal

cabincrews
4.janúar 2018. „Eitthvað sagði mér að það væri maðkur í mysunni,“ sagði Shelia Fedrik, flugfreyjahjá Alaska Airlines. „Stúlkan leit út eins og hún væri ný stigin upp úr helvíti.“ 

Fedrick var að störfum í flugi í Bandaríkjunum frá Seattle til San Francisco þegar hún tók eftir velklæddum eldri manni sem ferðaðist í fylgd með táningsstúlku sem var„rytjuleg og heldur umkomulaus.“Fedrick ávarpaði parið en stúlkan þagði þunni hlóði en maðurinn hrökk í varnarstöðu.

Flugfreyjan ákvað að skrifa skilaboð til stúlkunnar og skilja þau eftir á snyrtingunni og sagði henni svo lítið bar á að hún ætti að fara þangað.  „Hún skrifaði á seðilinn að hún þyrfti á hjálp að halda,“ sagði Fedrick, sem lét flugstjórann samstundis vita. Lögreglumenn biðu flugsins við lendingu í San Fransisco og komust að raun um að stúlkan hefði sætt mansali. 

Mansal er talin þriðja ábatasamasta glæpagrein heims á eftir ólöglegri vopnasölu og eiturlyfjasölu. Ekki er þó heyglum hent að meta umfangið sökum leyndarhjúps sem hvílir yfir slíkri starfsemi   Karlar, konur og börn eru ýmist þvinguð eða véluð í vændi og þrældóm eða jafnvel til að láta nema úr sér líffæri.Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) telur að á síðasta ári, 2017, hafi 40.3 milljónir manna í heiminum sætt þvingunarvinnue og nútíma þrælahaldi. 

 Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2010 Alheims aðgerðaáætlun til að berjast gegn mansali og hvatti aðildarríki til að samþykkja landsáætlanir í sama skyni. Einstakar stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa einnig hlutverki að gegna. Þannig hefur mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna unnið með Alþjóða flugmálastofnuninni (ICAO) við að semja leiðarvísi til að þjálfa flugáhafnir í því að þekkja fórnarlömb mansals og láta vita af mansali eftir réttum boðleiðum. 

„Flugáhafnir eru í kjör-aðstöðu því flugliðar geta fylgst með farþegum í nokkurn tíma og beitt athyglisgáfu sinni til að þekkja úr hugsanleg fórnarlömb mansals,” segir í leiðarvísinum.Í leiðavísinum eru gefin nokkur dæmi um það sem áhöfnum ber að hafa í huga. Þar á meðal að vera vakandi fyrir því þegar farþegi hefur ekki yfirráð yfir skilríkjum sínum eða þau virðast fölsuð. Sama máli gegnir um þegar farþegi getur ekki nefnt lokaáfangastað sinn eða fær ekki að tala milliliðalaust við flugliða eða fer ekki frjáls ferða sinna án stanslausrar fygldar annara ferðafélaga. Flugliðum eru kennd sérstök viðbrögð til að láta vita hvort heldur sem vélin er í lofti eða á jörðu niðri, ævinlega með það í huga að stofna hvorki öryggi meints fórnarlambs eða annara farþega í hættu.

Sameinuðu þjóðirnar og ESB gegn

kynferðislegu ofbeldi 

#Spotlight