3.janúar 2018. Búist er við að La Niña hafi áhrif á veður um allan heim á árinu 2018 og hvetja Sameinuðu þjóðirnar ríkisstjórnir og alþjóðasamfélagið um að vera við öllu búin.
El Niño og La Niña eru veðurfyrirbæri á Kyrrahafi sem hafa með reglulegu millibili áhrif á veðurkerfi jarðar með þeim hætti að ýta undir öfga í veðurfari.
Skrifstofa mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum segir að hægt sé að milda áhrifin með fyrirbyggjandi aðgerðum.
„Við vitum að því fyrr sem við getum brugðist við, því skilvirkari og öflugri eru viðbrögðin,” segir Greg Puley hjá samræmingjarskrifstofu mannúðaraðstoðar hjá SÞ (OCHA).
El Niño er heiti yfir hlýnun yfirborðs sjávar í mið- og austurhluta hitabeltisins á Kyrrahafi sem gerist á þriggja til sjö ára fresti. Áhrifin teygja anga sína um allan heim með þeim hætti að sums staðar rignir óhóflega á sama tíma og algjör þurrkur ríkir annars staðar.
La Niña er hins vegar andstaða bróður síns Niño því þá kólnar yfirborð sjávar, en áhrifin eru einnig að ýta undir sveiflur veðursins.
Árið 2016 þurftu 23 ríki með 60 milljónir íbúa að óska eftir mannúðaraðstoð vegna afleiðinga El Niño.
Sameinuðu þjóðirnar benda á að forvarnir geta dregið úr skaða.
„Ef vatnavöxtum er spáð, er hægt að fjárfesta í styrkingu árbakka tll að koma í veg fyrir að ár flæði yfir bakka sína,” segir Greg Puley. “Það kostar ef til vill 10 milljónir Bandaríkjadala að styrkja bakkana en 50 til 60 milljónir að útvega mat, vatn og húsaskjól, ef íbúar neyðast til að flýja vatnavexti.”
Mynd: Kóralrifi á Seychelles eyjum á myndinni urðu fyrir barðinu á El Niño 2016. Mynd: Kadir van Lohuizen/NOOR
Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu
United Nations Regional Information Centre for Western Europe (UNRIC Brussels)
Residence Palace, Rue de la Loi/Wetstraat 155, Block C2,7th and 8th floor, Brussels 1040, Belgium - Tel.: +32 2 788 8484 / Fax: 32 2 788 8485