Sunnudagur, 18 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Loftslagsráðstefna í Bonn til að fylgja eftir Parísarsamkomulagi

 
cop23

6.nóvember 2017. Þjóðir heims koma saman til loftslagsráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í dag.

Markmiðið er að finna leiðir til að ná þeim markmiðum sem samið var um  í Parísar-samkomulaginu um loftslagsmál. Ráðstefnan sem kölluð er COP23 er tækifæri fyrir þjóðir heims til að sýna metnað sinn í loftslagsmálum og staðfestu í að standa við gefin loforð. 

 „Parísarsamkomulagið náðist á einum af þeim augnablikum þegar besti hluti mannkynsins náði að koma sér saman um samkomulag sem var þýðingarmikið fyrir framtíðina. Fundurinn í Bonn snýst um hvernig við höldum áleiðis til að standa við loforðin,” segir Patricia Espinosa, forstjóri Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC).  

Parísarsamkomulagið var samþykkt af 196 aðilum að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í desember 2015. Þar setja aðilar sér það mark að aukning hitastigs jarðar haldist innan tveggja gráða á selsíus og leitast við að takmarka hlýnunina við 1.5 gráður. 

Viku áður en ráðstefnan hófst tilkynnti Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) að magn koltvýserings í andrúmsloftinu hefði aldrei aukist jafn hratt og árið 2016. 

Þá gaf Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna út árlega skýrsu þar sem mat er lagt á hve stórt bil er á milli fyrirheita um niðurskurð losunar kolvtvýserings í Parísar-samkomulaginu og raunverulegs niðurskurðar.  Þar er komist að þeirri niðurstöðu að  „bilið valdi áhyggjum.” Jafnvel þótt staðið væri við allar landsáætlanir eða fyrirheit einstakra ríkja um niðurskurð, myndi losunin valda að minnsta kosti þriggja gráðu hækkun hitastigs jarðar fyrir lok þessarar aldar. 

  „Einu ári eftir að Parísar-samkomulagið tók gildi, stöndum við frammi fyrir því  enn einu sinni að við höfum ekki gert næstum nógu mikið til að forða hundruð milljónum manna frá ömurlegri framtíð, segir Erik Solheim, forstjóri UNEP, Umhvefisstofnunar SÞ.  

Fiji-eyjar sitja í forsæti ráðstefnunnar í Bonn sem hófst í dag og stendur til 17.nóvember. Oddvitar ríkja og ríkisstjórna, ásamt António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna taka þátt í síðustu dögum ráðstefnunnar, 15.og 16.nóvember.

Sjálfbær heimur 2018