Mánudagur, 19 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Opnum markaði til að vinna á fátækt

 Gulli

22.september 2017. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra ávarpaði Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna síðdegis í dag og lagði áherslu á gildi Parísarsamningsins um loftslagsbreytingar, sjálfbæra þróun og viðskiptafrelsis í heiminum.

Utanríkisráðherra hóf mál sitt á því að segja að aldrei hefði mannkynið haft jafn gott tækifæri og nú til þess að binda enda á fátæki og hungur og stöðva mannréttindabrot. “Þetta er val. Þetta er ákvörðun,” sagði Guðlaugur Þór.

Hann gerði Parísaráttmálann um loftslagsbreytingar að umræðuefni í byrjun ræðu sinnar og sagði að hann væri vegvísir en nú væri komið að því fylgja orðum með efndum. Íslendingar myndu leggja sín lóð á vogarskálarnar með því að draga úr losun koltvýserings um 40% árið 2030 miðað við 1990.

Guðlaugur Þór lýsti áhyggjum af öfgastefnum og hryðjuverkum og minnti á að rót átaka og ofbeldisfullra öfgastefna lægi í vanþróun.

“Hér hefur Áætlun 2030 mikilvægu hlutverki að gegna,” sagði utanríkisráðherra og vísaði þar til Heimsmarkmiðanna um Sjálfbæra þróun. Hann minnti á að grundvöllur þeirra væri Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og að mannréttindi, friður og þróun væru óaðskiljanleg.

Hann hét því að Ísland myndi halda áfram að taka við flóttamenn og styðja myndarlega við bakið á stofnunum Sameinuðu þjóðanna jafnt í þeirra málum sem og í jafnréttismálum.

Guðlaugur Þór sagði að Ísland hefði brotist úr viðjum fátæktar í krafti frjálsra viðskipta. Hann minnti á að Sameinuðu þjóðirnar ættu sitt varnarþing í háborg verslunar og viðskipta í heiminum og þar væri einatt á dagskrá að binda enda á fátækt. “Er ekki kominn tími til að við gerum eitthvað í málinu? Við getum gert eitthvað. Við getum opnað markaði okkar. Við getum leyft fátækum ríkjum að eiga viðskipt við neytendur okkar,” sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni á Allsherjarþinginu.

Hér má sjá ræðuna í heild og hér má lesa hana.

Sjálfbær heimur 2018