Þriðjudagur, 20 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Ban Ki-moon á Grænlandi

Greenland SG

26.mars 2014. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kom í gær til Grænlands þar sem hann hyggst kynna sér afleiðingar loftslagsbreytinga.

 Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur og Aleqa Hammond , formaður grænlensku heimastjórnarinnar (Naalakkersuisut) tóku á móti honum við komuna, en hann dvelst á Grænlandi fram á fimmtudag. “Á meðan á heimsókninni stendur munu framkvæmdastjórinn og danski forsætisráðherrann fá tækifæri til þess að kynnast áhrifum loftslagsbreytinga á Norðurheimskautssvæðið, þar á meðal áhrif hlýnun jarðar á íbúana sem eru verulega háðir náttúrunni og loftslaginu,” segir heimastjórnin í tilkynningu.

Næstu daga mun Ban Ki-moon dveljast í Illullissat og skoða Jakobshavn jökulinn; hann mun aka hundasleða og heimsækja Uummannaq, heimabæ Aleqa Hammond.
”Ban Ki-moon vill heimsækja þá staði á jörðunni þar sem loftslagsbreytingar hafa valdið mestum usla. Ég vona og trúi að heimsóknin verði til þess að vekja fólk til vitundar um loftslagsbreytingar,” segir Helle Thorning-Schmidt.

Heimsóknin er í aðdraganda Leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um Loftslagsmál sem Ban Ki-moon hefur boðað til 23.september í New York. Fundurinn er talinn mikilvægur vegna þess að nú styttist í að ljúka skuli bindandi loftslagssáttmála sem á að undirrita í París í lok næsta árs.

Mynd: Aleqa Hammond tekur á móti Ban Ki-moon við komuna til Grænlands í gær. SÞ/Eri Kaneko. 

 

Sjálfbær heimur 2018