Mánudagur, 19 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Mannréttindastjóri SÞ gagnrýnir rafrænar njósnir

 Ban Pillay

10.desember 2013. Navi Pillay, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna beinir spjótum sínum að rafrænum njósnum og drápum með mannlausum flygildum í yfirlýsingu á Mannréttindadaginn 10.desember.

 “Við sjáum nú hvernig ný tækni greiðir fyrir mannréttindabrotum með skuggalegri skilvirkni 21.aldar. Umfangsmikið rafrænt eftirlit og söfnun upplýsinga er ógn við réttindi einstaklinga og frjálst og virkt borgaralegt samfélag” segir Navi Pillay Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.

“Vopnuð mannlaus flygildi (drones) eru líka notuð, án eðlilegra lagalegrar málsmeðferðar til fjarstrýrðra árása á einstaklinga. Svo kallaðar “drápsvélar” –vopnakerfi sem geta valið skotmöðrk og gert árásir án mannlegrar íhlutunar eru ekki lengur vísindaskáldskapur heldur veruleiki.”
Mannréttindadagurinn er haldinn á ári hverju 10.desember til að minnast samþykktar Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Að þessu sinni er einnig haldið upp á að tuttugu ár eru liðin frá Vínar-yfirlýsingunni og Aðgerðaáætlun hennar auk stofnunar embættis Mannréttindastjórans (OHCHR).

Mannréttindafulltrúinn, Navi Pillay, segir í yfirlýsingu sinni að Vínar-yfirlýsingin hafi fastmótað það grundvallarsjónarmið að mannréttindi væru algild og skuldbundið ríki til þess að efla og vernda mannréttindi í þágu allra, án tillits til pólitískra-, efnahagslegra- eða menningarlegra þátta. “Árvekni er þörf til þess að tryggja að ný tækni efli fremur en skaði mannréttindi. Hversu miklar sem þessar breytingar eru, þá gilda eftir sem áður ákvæði alþjóðlegra mannréttindalaga og alþjóðlegra mannúðarlaga sem setja ákveðnar skorður við aðgerðir í vopnuðum átökum. Ríkjum bera að sjá til þess að þessi ákvæði séu virt.”

Í ávarpi sínu á Mannréttindadaginn hvatti Ban Ki-moon, framkvæmdstjóri Sameinuðu þjóðanna til þess að aðildarríki samtakanna “hefðu í heiðri þau loforð sem þau hefðu gefið á Vínarráðstefnunni.” Hann heiðraði einnig minningu Nelson Mandela, fyrrverandi forseta Suður Afríku “sem eins glæsilegasta tákn mannréttinda á okkar dögum..Hann mun ætíð verða okkur fyrirmynd við að byggja betri heim þar sem mannréttindi allra eru virt því hann helgaði líf sitt mannlegri reisn, jafnrétti, réttlæti og samúð.”

Mynd: Frá vinstri Navi Pillay, Ban Ki-moon og Agostinho Zacarias, yfirmaður SÞ í Suður Afríku í Jóhannesarborg í gær. SÞ-mynd/Rebecca Hearfield

 

Sjálfbær heimur 2018