Sunnudagur, 25 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Bestu friðarvonir í Kongó um áratuga skeið


Peace great lakes

22. maí 2013. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og forstjóri Alþjóðabankans segja að nýlegt friðarsamkomulag gefi Kongó og nærliggjandi ríkjum “bestu vonir um frið og efnahagslega þróun í mörg ár.”

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjðoðanna og Jim Yong Kim, forstjóri Alþjóðabankans, skrifa í sameiningu grein sem birt er í dagblöðum víða um heim. Þar segja þeir að þessi heimshluti við Vötnin miklu í Afríku, standi frammi fyrir besta tækifæri sem stríðsþreyttum íbúunum hafi gefist í marga áratugi.

“Það er raunhæfur möguleiki á að byssurnar þagni, traust og viðskipti á milli nágranna verði endurvakin, milljónir barna sæki skóla á ný, konur verði valdefldar og ný efnahagsleg tækifæri sköpuð sem get rutt brautina til velmegunar, góðra stjórnarhátta og varanlegs stöðugleika.”

Greinin er skrifuð í aðdraganda sameiginlegrar heimsóknar leiðtoga Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans til Lýðveldisins Kongó, Rúanda og Úganda en þar munu þeir hitta að máli leiðtoga ríkja í þessum heimshluta og tikynna um sértækar aðgerðir til að hraða þróun og festa friði í sessi á grundvelli samkomulags sem ellefu ríki í heimshlutanum hafa undirritað.
Samkomulagið er ávöxtur friðarviðleitni Sameinuðu þjóðanna, Afríkusambandsins og ýmissa staðbundinna samtaka í Afríku.

Leiðtogarnir tveir vara hins vegar við því að mikið verk sé óunnið og benda á að 70 af hundraði íbúa Kongó eru undir fátæktarmörkum og lifa á minna en sem samsvarar 1.25 Bandaríkjadal á dag. 6.3 milljónir manna reiða sig á matargjafir og kynferðislegt ofbeldi er landlægt um allt landið. Þar að auki hafa meir en þrjár milljónir Kongóbúa flosnað upp frá heimilum sínum. 2.6 milljónir innan landamæra ríkisins og 460 þúsund hafa flúið til nágrannaríkjanna.

“Með því að endurvekja efnahagslega virkni og bæta lífskjör í landamærahéruðum, með því að stuðla að viðskiptum þvert á landamæri, með því að auka efnahagsleg tengsl ríkja, með því að uppræta spillingu og tryggja að nátturúauðlindir séu nýttar til hagsbóta allra, er hægt að byggja upp traust og auka velmegun, tekjur og tækifæri,” skrifa framkvæmdastjóri Sameinuðu þjoóðanna og forstjóri Alþjóðabankans í grein sinni.

Mynd: Friðarsamkomulag Miklu vatna-svæðisins undirritað í Addis Ababa í Eþíópíu 24. febrúar 2013. SÞ-mynd/Evan Schneider. 

Sjálfbær heimur 2018