Fimmtudagur, 22 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Málfrelsi er misskipt

safe to speak

2. maí 2013. Næst þegar þið lesið blaðið ykkar að morgni dags, eða hlustið á fréttirnar gæti verið þess virði að hugsa til þess hverjir það eru sem eru að baki fréttunum sem þið fáið glóðvolgar á morgnana.
Sumar þeirra hafa kostað höfundana lífið. Meir en 600 blaðamenn hafa verið drepnir við störf sín á síðustu tíu árum og margir þeirra í starfi utan átakasvæða. Í níu af hverjum tíu skiptum sleppa þeir við refsingu sem drepa blaðamenn. Allt of margir starfsmenn fjölmiðla mega þola harðræði, þvinganir og ofbeldi. Of margir mega sæta fangelsun og pyntingum, oft án dóms og laga.

Þema Alþjóðadags fjölmiðlafrelsis sem haldinn er ár hvert 3. maí er “Örugg tjáning: Að tryggja málfrelsi í öllum fjölmiðlum.” Markmiðið er að fylkja liði á alþjóðlegum vettvangi til að tryggja öryggi hvers einasta blaðamanns, í hverju einasta ríki og binda enda á refsileysi.
Finnland er efst á lista  yfir ríki sem virða mest frelsi fjölmiðla, þriðja árið í röð. Ísland og raunar öll hin Norðurlöndin eru á top tíu listanum. Það þarf svo ekki að koma á óvart að neðst á listanum eru þrjú alræðisríki: Erítrea, Norður-Kórea og Túrkmenistan.
Nítján blaðamenn hafa verið drepnir á árinu og 9 netverjar en alls hafa 174 verið fangelsaðir. Í ávarpi í tilefni dagsins segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna: “Þetta er harmleikur fyrir viðkomandi einstaklinga, en þetta snertir okkur öll því þetta er árás á rétt alls fólks til að heyra sannleikann.”

Mynd: Eþíópíski blaðamaðurinn Reevot Alemu hlaut fjölmiðlafrelsisverðlaun UNESCO sem kennd eru við Guillermo Cano 2013. Flickr / Yoshiffles, 2.0 Generic (CC BY-ND 2.0)

Sjálfbær heimur 2018