Fimmtudagur, 22 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Ban krefst réttinda fyrir samkynhneigða

lgbtrights


17. apríl 2013. Víða um fólk sætir fólk mismunun, misþyrmingum og fangelsun fyrir kynhneigð sína og kynáttun.

Þessi brot á grundvallarmannréttindum eru í brennidepli í Osló þessa vikuna á Alþjóðlegri ráðstefnu um Mannréttindi, kynhneigð og kynáttun.Hér er um að ræða hnattræna samræðu sem Noregur og Suður-Afríka hafa tekið að sér að leiða og kemur í kjölfar funda í Kathmandu, París og Brasilíu og hafa þátttakendur verið frá fleiri en 200 frá 84 ríkjum. Í ávarpi sem flutt var af myndbandi á ráðstefnunni sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að almenningur ætti að bregðast ókvæða við þeirri mismunun og ofbeldi sem fólk væri beitt vegna kynhneigðar. “Þetta er í hópi umfangsmikilla mannréttindabrota sem ekki hefur verið tekið á, “ sagði Ban og bætti við “við verðum að uppræta þetta.” 

 

Á ráðstefnunni hefur verið bent á fjölmörg jákvæð skref sem tekin hafa verið um allan heim í þá átt að takast á við ofbeldi og lög og venjur sem byggja á úreltum hugmyndum um kynhneigð og kynáttun. Lög hafa verið afnumin sem banna samkynhneigð og samkynhneigð og kynáttun eru nú á meðal þess sem nefnt er í löggjöf til höfuðs mismunun.

Engu að síður eru þess dæmi í öllum heimshornum að beitt sé kerfisbundnu ofbeldi og löggjöf sé beitt til að mismuna á grundvelli kynhneigðar og kynáttunar. Dæmi eru um hatursglæpi, pyntingar, kynferðislegt ofbeldi, manndráp, takmörkun á tjáningar- og félagafrelsi, handahófskenndar fangelsanir og refsingar.

Espen Barth Eide, utanríksiráðherra Noregs benti á nokkur alvarleg dæmi í setningarræðu sinni. Þannig hafa 28 verið sóttir til saka frá 2010 í Kamerún fyrir samkynhneigð. Lög sem banna svokallaðan “áróður fyrir samkynhneigð” hafa breiðst út um Mið- og Austur-Evrópu og í Rússlandi. Og í Úganda stafar lesbíum, hommum og transgender fólki (LGBT) ógn af framlögðu lagafrumvarpi til höfuðs samkynhneigð.

Í lokasamþykkt ráðstefnunnar er hvatt il þess að komið verði á fót ferli til þess að þeir agnúar sem fundist hafa í starfi Sameinuðu þjóðanna verið lagaðir. Hlutverk þess væri að fylgjast með þróun, tækifærum og áskorunum á þessu sviði og mæla með áþreifanlegum aðgerðum og áætlunum til að efla vernd þessara réttinda og laga að öllu starfi Sameinuðu þjóða kerfisins.

“Við viðurkennum að þau mál sem hér um ræðir koma við kauninn á mörgum. Barátta fyrir öðrum réttindum til dæmis á sviði kynþátta og jafnrétti kynjanna var líka umdeild á sínum tíma og nú eru slík réttindi almennt viðurkennd.”

Eins og Ban Ki-moon benti á í ávarpi sínu þá geta menning, hefðir og trúarbrögð aldrei verið skálkaskjól fyrir því að meina fólki að njóta grundvallar réttinda. Framkvæmdastjórinn sagðist munu taka af skarið um að leiða baráttu á heimsvísu til að efla réttindi samkynhneigðra og transgender fólks.

Sjá Oslóarávarp Ban Ki-moon hér.

 

Mynd: Flickr/ Christa Lohman / 2.0 Generic (CC BY-NC-ND 2.0

 

Sjálfbær heimur 2018