Sunnudagur, 25 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Nýr samningur er "sigur jarðarbúa"

Arms Treaty 2013

3. apríl 2013 – Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt nýjan alþjóðlegan vopnaviðskiptasamning. Samkomulag á ráðstefnu um málið strandaði á andstöðu þriggja ríkja fyrir páska, en meirhluti aðildarríkjanna samþykkti samninginn í gær (2. apríl).

Samningurinn felur í sér að reglur eru settar um alþjóðleg viðskipti með hefðbundin vopn. 154 ríki greiddu atkvæði með samningnum, sömu ríki og áður; Norður-Kórea, Íran og Sýrland greiddu atkvæði á móti en 23 ríki sátu hjá.

Margir oddvitar Sameinuðu þjóðanna lýstu yfir ánægju með samþykktina, þar á meða Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri samtakanna. Hann sagði að samningurinn væri mikilvægt vopn í baráttunni gegn alvarlegum mannréttindabrotum og bætti við að samþykkt hans væri byr í segl alþjóðlegrar afvopnunar á fleiri sviðum og takmörkunar útbreiðslu kjarnorkuvopna.

“Þetta er sögulegur diplómatískur árangur; langþráður draumur er að rætast í kjölfar áralangrar baráttu,” sagði hann í yfirlýsingu. “Þetta er sigur fyrir jarðarbúa.”

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna fagnaði samningnum og sagði hann þýðingarmikið skref í þá átt að vernda börn, þar sem settar eru reglur um sölu vopna frá einu ríki til annars.

“Samningurinn um viðskipti með vopn kveður sérstaklega á um að meta skuli hættuna af því hvort vopnasala geti auðvelda ofbeldisverk gegn konum og börnum,” sagði Susan Bissell, forstöðumaður barnaverndar hjá UNICEF. “Þetta er þýðingarmikið því ein helsta dánarorsök barna og unglinga í mörgum ríkjum, er að þau eru vopndauð jafnvel í ríkjum þar sem ekki ríkir styrjaldarástand.”

Amnesty International sem barist hefur fyrir samningnum um árabil fagnaði niðurstöðunni. "Þetta sýnir að venjulegt fólk með mjög góðar hugmyndir getur haft áhrif og gert heiminn okkar betri," segir á heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty. Samningurinn tekur gildi þegar fimmtíu ríki hafa fullgilt hann.

Mynd: Samþykkt vopnaviðskiptasamningsins í höfn seint í gærkvöld á Allsherjarþinginu. SÞ/

Devra Berkowitz

 

Sjálfbær heimur 2018