Miðvikudagur, 16 janúar 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Heimsáætlun til höfuðs kynbundnu ofbeldi samþykkt

bachelet

18. mars 2013. Oddvitar Sameinuðu þjóðanna fagna samkomulagi sem fulltrúar meir en 130 aðildarríkja hafa náð til að hindra og uppræta hvers kyns ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Hvetja þeir ríkisstjórnir til að hrinda þessari “sögulegu” samþykkt þegar í stað í framkvæmd.

 

“Framkvæmdastjórinn vonast til að allir aðilar á þessum sögulega fundi og aðrir um allan heim muni nú gríða til raunhæfra aðgerða,” sagði talsmaður Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu.
Þúsundir fulltrúa ríkisstjórnar, miliríkjasamtaka, borgaralegs samfélags, einkageirans og stofnana Sameinuðu þjóðanna tóku þátt í að semja lokaskjal tveggja vikna 57. Fundar Ráðsins um stöðu kvenna á vegum Sameinuðu þjóðanna í New York.
Á meðal forgangsatriða í lokaskjalinu er að komið skal á fót þverfaglegri þjónustu fyrir fórnarlömb ofbeldis, þar á meðal á sviði heilsugæslu, sálgæslu og ráðgjöf auk áherslu á réttinn til að tryggja kynferðis- og frjósemis heilbrigði kvenna.
Þá er sérstaklega kveðið á um að binda enda á refsileysi gerenda í kynferðislegu ofbeldi.

Allt að sjö af hverjum 10 konum verða fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Lög gegn heimilisofbeldi eru í 125 ríkjum. 603 milljónir kvenna búa hins vegar í ríkjum þar sem heimilisofbeldi er ekki glæpsamlegt.
Michelle Bachelet, forstjóri UN Women segist gleðjast sérstaklega yfir því að samkomulag hafi náðst. Ofbeldi gegn konum var rætt á fundi nefndarinnar árið 2003 en þá tókst ekki samkomulag um aðgerðaáætlun.
“Við munum halda áfram þessu starfi þar til konur og stúlkur geta lifað í friði frá ótta við ofbeldi og mismunun,” sagði Bachelet.
Tilkynnt var í lok fundarins að hún hygðist láta af störfum hjá UN Women.

Mynd: Michel Bachelet ásamt Ban Ki-moon á fundi ráðsins í New York. SÞ/Eskender Debebe.