Sunnudagur, 25 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Þróunarsamvinna: 0.42% árið 2016

vatnskonur
 

14. febrúar 2013. Stefnt er að því samkvæmt nýrri áætlun um þróunarsamvinnu Íslands að framlög til málaflokksins hækki ár frá ári og nemi 0.42% af þjóðartekjum 2016.

Þetta kemur fram í nýju tölublaði vefrits um þróunarmál sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands gefur út. Samkvæmt áætluninni sem lögð hefur verið fram á Alþingi hækka framlög til þróunarmála á næstu árum í samræmi við fyrri samþykkt þingsins frá vorinu 2011. Þá var þverpólítísk samstaða á þingi um að ná viðmiðun Sameinuðu þjóðanna um 0.7% af þjóðartekjum á árinu 2019. Samkvæmt lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands á að leggja fram áætlun í málaflokknum á tveggja ára fresti. Í þessari annarri áætlun sem gildir fyrir árin 2013 til 2016 er gert ráð fyrir að framlög hækki úr 0.26% af þjóðartekjum á þessu ári í 0.28% á næsta ári. Á árinu 2015 er gert ráð fyrir 0,35% og 0,42% árið 2016.

 Eins og kunnugt er hafa framlög norrænu ríkjanna um áratugaskeið verið hærri en viðmið Sameinuðu þjóðanna, en auk Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur hafa Hollendingar og Lúxemborgarar verið yfir þessum mörkum. Bretar stefna að því að verða í þessum hópi innan tíðar og innan Evrópusambandsins hefur verið mörkuð sú stefna að ná 0.7% markinu á árinu 2015. Hlutur frjálsra félagasamtaka í framlögum hækkar á næstu tveimur árum úr 6% í 8%.

Í nýju þróunarsamvinnuáætluninni sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði fram á þingi í vikubyrjun er markmið Íslendinga með alþjóðlegri þróunarsamvinnu að leggja íslensk lóð á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims. Með virkri þátttöku á þessu sviði leitist Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Alþjóðleg þróunarsamvinna sé ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu.

"Slegið er föstu að barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum sé áfram þungamiðja í stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Jafnframt verði lögð rík áhersla á mannréttindi, jafnrétti kynjanna, réttindi barna, frið og öryggi. Leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkisstefnu Íslands með tilliti til hnattrænna efnahags-, umhverfis- og öryggismála," segir í áætluninni.


(Grein úr Veftímariti um þróunarmál) Ljósmynd: Gunnar Salvarsson/Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Ekkert líf á landi

    án skóga