Sunnudagur, 18 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Útvarpsdagurinn 2013: Rödd hinna raddlausu

radio


13. febrúar 2013. Þrátt fyrir velgengni Facebook er hún ekki útbreiddasti miðill heims: útvarpið skipar þann heiðurssess og nær til hvorki meira né minna en 95% íbúa heimsins.

 

13. febrúar er Alþjóða útvarpsdagurinn en þá er athyglinni beint að þeim jákvæðu áhrifum sem útvarpið hefur á líf milljóna manna.

“Frá því útvarpið var fundið upp fyrir meir en hundrað árum, hefur útvarpið glætt ímyndunaraflið, rutt brautina fyrir breytingum og komið lífsnauðsynlegum upplýsingum til skila. Útvarpið skemmtir, menntar og fræðir. Það eflir lýðræðislega tjáningu og kemur hugmyndum á framfæri,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins.
 
Útvarpið leikur það hlutverk að ljá þeim raddlausu rödd, ef svo má að orði komast. Svo dæmi séu tekin þá hefur samfélagsútvarp í Laos náð til fjallabúa og annara sem búa á afskekktum stöðum og aukið skilning þeirra á félagslegri og efnahagslegri þróun samfélagsins. Rædd eru málefni á borð við markaði og verð, atvinnutækifæri, klasavopn og ósprungnar sprengjur, landbúnað, heilsugæslu, menntun og lagasetningu.

Radio Padma í Bangladesh er rödd kvenna. “Það er ekkert eins ánægjulegt og að starfa í þágu kvenna og efla málstað þeirra,” segir Ridita Miam, fréttamaður hjá Radio Padma í samtali við tíðindamenn UN Women.
 
Útvarp hefur oft mikilvægu hlutverki að gegna þótt sendirinn dragi aðeins nokkra kílómetra, með því að rjúfa einangrun afskekktra samfélaga. Gagn útvarps sem bundið er við mjög smá svæði felst í því að geta sinnt afmörkuðum hópum sem hafa ef til vill ekki aðgang að rafmagni eða rennandi vatni hvað þá interneti – á þeirra eigin tungumáli eða mállýsku. Ólæsi er engin hindrun: hver einasti maður sem getur talað og hlustað er gjaldgengur.

“Útvarpið breytti miklu áður fyrr og er enn sem fyrr öflugt tæki til að móta friðsælli og sjáflbærari framtíð þar sem rúm er fyrir alla,” segir Irina Bokova, forstjóri UNESCO, Mennta-, menningar-, og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Mynd: Umræður í þorpsútvarpi í Suður-Súdan. SÞ/ Tim McKulka.

Sjálfbær heimur 2018