Sunnudagur, 18 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Afghanistan: Mútað fyrir tvöfaldar tekjur ríkisins

afghanreport

7. febrúar  2013. Heildar spillingar-veltan í Afganistan hefur aukist umtalsvert á undanförnum þremur árum og nemur nú 3.9 milljörðum Bandaríkjadala.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Heldur færri borga mútur en áður, en engu að síður eru mútugreiðslur og mútuþægni landlæg og sliga þjóðfélagið.
Helmingur Afgana borgaði mútur til að fá opinbera þjónustu og nærri 30% borguðu mútur í einkageiranum, að því er fram kemur í rannsókn á spillingu í Afganistan sem unnin var af UNODC, Eiturlyfja og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og afgönskum yfirvöldum.

 

Þetta eru háar tölur en heldur lægri en fyrir þremur árum, en árið 2009 greiddu 59% Afgana mútur. Hins vegar borgaði hver og einn að meðaltali 5.6 sinnum mútur í stað 4.7 sinnum 2009. Meðalmútur eru nú andvirði 214 dala og hefur “verðið” hækkað um 29% að raunvirði.

 “Múturnar sem afganskir borgarar greiddu árið 2012 voru andvirði tvöfaldra tekna ríkisins eða sem nemur fjórðungi Tokyo-loforðanna,” segir Jean Luc Lemahieu, fulltrúi UNODC í Afganistan og vísar þar til fyrirheita erlendra ríkja á ráðstefnu í Tokyo um efnahagsaðstoð við Afganistan. Þar var safnað fyrirheitum um 16 milljarða dollara stuðning við landið til að efla efnahagsþróun. Aðstoðin er skilyrt því að Afgönum ber að skera upp herör gegn spillingu, ella fá þeir ekki allt þetta fé.

Úrtakið var  6700 afganskir borgarar átján ára og eldri um allt landið. 68% aðspurðra töldu það ásættanlegt að embættismenn þægju lítils háttar mútur og álíka margir töldu eðlilegt í sumum tilfellum að ættartengsl og vinátta réðu ráðningum í embætti.

Athygli vekur að 51% Afghana mútuðu kennurum árið 2012, en aðeins 16% gerðu það árið 2009.

Mynd: Forsíða skýrslu UNODC

Sjálfbær heimur 2018