Mánudagur, 23 apríl 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Ban lýsir yfir vonbrigðum með dóm í Sómalíu

somalia2

6. febrúar 2013. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst djúpum vonbrigðum sínum með eins árs dóm sem kveðinn var upp í Mogadishu í Somalíu yfir konu sem sakaði öryggissveitir um nauðgun.

Blaðamaður sem tók viðtal við hana hlaut sama dóm.
 “Framkvæmdastjórinn hvetur ríkisstjórn Sómalíu til að tryggja að ásakanir um kynferðislegt ofbeldi séu rannsakaðar að fullu og ofbeldismenn dregnir fyrir dóm,” segir í yfirlýsingu talsmanns hans.
Yfirvöld í Sómalíu handtóku konuna og blaðamann sem hafði rætt við hana í síðasta mánuði. Hún hafði skýrt frá því að henni hafi verið nauðgað í flóttamannabúðum af mönnum íklæddum búningum stjórnarhersins.   
Blaðamaðurinn Abdiaziz Abdinur Ibrahim var ákærður fyrir að móðga ríkisvaldið og fyrir rangar sakargiftir jafnvel þótt viðtalið hafi aldrei verið birt. Konan var ákærð fyrir að brot gegn heiðri ríkisstofnunar og bæði hafa verið dæmd í eins árs fangelsi.  
Sameinuðu þjóðirnar telja að frá janúar til nóvember 2012 hafi 1700 konum verið nauðgað í flóttamannabúðum í eða nærri Mogadishu.. Zainab Hawa Bangura,sérstakur erindreki framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um kynferðisofbeldi í hernaði bendir á að líklega sé þetta aðeins hluti af raunverulegum brotum. Fórnarlömb hafi oft ekki aðgang að heilsugæslu eða tilkynni ekki atburðinn af ótta eða skömm.
 
“Konan og þeir sem hvöttu hana til þess að leita réttar síns eru dregin fyrir dóm. Þetta er tilraun til þess að þagga niður í konum, ekki aðeins í Sómalíu, heldur um allan heim með því að hóta þeim reiði ríkisvaldsins, ef þær haldi sér ekki saman, Þessa sama ríkisvalds og ber að vernda þær, ” segir sérstaki erindrekinn. “ “Þessar aðgerðir hafa einnig slæmar afleiðingar fyrir blaðamenn, þegar einn þeirra reynir aðö varpa ljósi á þær fjölmörgu nauðganir sem hafa átt sér stað í búðum fyrir uppflosnað fólk í Sómalíu, en uppsker fangelsisvist.”

 

Mynd: Flóttamannabúðir í Sómalíu, myndin tengist efni greinarinnar ekki beint. SÞ/Eric Stuart.

Sameinuðu þjóðirnar og ESB gegn

kynferðislegu ofbeldi 

#Spotlight