Mánudagur, 23 apríl 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Vin í (loftslags) eyðimörkinni

sahara forest project

6. desember 2012. Sumum kann að þykja eins erfitt að komast að samkomulagi um loftslagsmál, eins og að rækta grænmeti í eyðimörk.

Þess vegna eru það kannski góðar fréttir að í einungis klukkutíma akstursfjarlægð frá Doha, þar sem nú er verið að semja um loftslagsmál, hafa norsku umhverfisverndarsamtökin Bellona hafið ágúrkurækt.

Þetta hljómar eins og lygasaga eða grænn draumur enda má segja að í einu vetfangi sé unnið gegn hungri í heiminum ig eyðimerkurmyndun auk þess að binda koltvísering sem veldur gróðurhúsaáhrifum.

"Sahara-skógaverkefnið snýst í raun um það að nota það sem við höfum nóg af eins og saltvatn, koltvísering, sólskin og eyðimörk til að framleiða það sem okkur vanhagar um eins og mat, vatn og orku,” segir Joakim Hauge, verkefnisstjóri Bellona.

Sahara-skógaverkefnið var fyrst kynnt á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009. Mörgum fannst hugmyndin of góð til að geta verið sönn. Svar Bellona var að sjón væri sögu ríkari. Í febrúar á þessu ári hófst Bellona handa og ýtti úr vör tilraunaverkefninu í samvinnu við áburðarframleiðendurna Yara og Qafco. Tíu mánuðum síðar eru fyrstu gúrkurnar orðnar vænar og grænar. Nútíma umhverfisvænni tækni sem hefur enga losun koltvíserings í för með sér, er beitt á tíu þúsund fermetra stóru vinnusvæði.

Tæknigaldurinn felst ekki síst í notkun sjávar: þegar saltvatn gufar upp kólnar  andrúmsloftið og raki myndast í gróðurhúsunum. Þegar við bætist, annars vegar markviss notkun sólarorku til raforkuframleiðslu og hitastjórnunar og hins vegar ný tækni til að enduruppgræða eyðimörkina, er ljóst að margar flugur hafa verið slegnar í einu höggi.
 
Málið hefur þegar vakið mikla athygli á ráðstefnunni í Doha og einn þeirra sem lagt hafa leið sína til að sjá “eyðimerkurundrið” er Bård Vegar Solhjell, umhverfisráðherra Noregs.  

“Maður getur ekki annað en dáðst að því þegar fólki, ekki aðeins dettur þetta í hug, heldur hrindir því líka í framkvæmd í eyðimörkinni hér í Katar. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort þetta tilraunaverkefni á sér framtíð. Möguleikarnir eru allavega miklir,” sagði Solhjell.

Björninn er ekki unninn enda þarf samvinnu stórfyrirtækja og vísindamanna til þess endurteka megi verkefnið í Katar í stórum stíl annars staðar. Markmið Sahara-skógarverkefnisins er að vera umhverfisvænt og arðvænlegt þróunarverkefni. Í augnablikinu vriðist þetta verkefni lofa einstaklega góðu – sannkölluð vin í umhverfiseyðimörkinni, myndi einhver segja.


Mynd: Sahara Forest Project

Sameinuðu þjóðirnar og ESB gegn

kynferðislegu ofbeldi 

#Spotlight