Mánudagur, 26 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

SÞ: Fleiri ríki þurfa að staðfesta barnasáttmála


kids


20. nóvember 2012. Fimm helstu sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna í réttindum barna hvöttu ríkisstjórnir heims í dag til að grípa til eindregnari aðgerða til að vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi. Þeir segja að hindra beri glæpi gegn börnum og draga þá fyrir dómstóla sem gerist sekir um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og þvingun barna til herþjónustu í átökum. Þetta segir í yfirlýsingu sérfræðinganna á degi barnsins.

Sameinuðu þjóðirnar halda í dag, 20. nóvember, hátíðlegan dag barnsins en hverju ríki er í sjálfsvald sett hvenær dagsins sé minnst. Fitjað var upp á því að halda dag barnsins árið 1954 til að berjast gegn vinnu barna við hættulegar aðstæður og berjast fyrir því að börn fengju aðgang að menntun.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hvöttu ríkisstjórnir heims sérstaklega til þess að Sáttmálinn um réttindi barna og þrír valkvæðir viðaukar hans skyldu staðfestir um allan heim. “Þessir sáttmálar skipta sköpum um að slegin sé skjaldborg um réttindi barna og þau vernduð fyrir ofbeldi, misnotkun og misbeitingu hvort heldur sem er í stríði eða friði,” segja sérfræðingarnir.

Þeir eru Jean Zermatten, formaður nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna; Marta Santos Pais, sérstakur erindreki framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, Leila Zerrougui, sérstakur erindreki framkvæmdastjórans um börn og vopnuð átök, Najat Maalla M’jid, sérstakur erindreki samtakanna um sölu barna, barnavændi og barnaklám og Susan Bissell, yfirmaður barnaverndar hjá Barnahjálp SÞ (UNICEF).

Mynd: SÞ/Bikem Ekberzade

Sjálfbær heimur 2018