Laugardagur, 24 mars 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Sárt en nauðsynlegt að viðurkenna mistök

petriemalcorra

16. nóvember 2012. Sameinuðu þjóðirnar eru staðráðnar í því að nýta til fullnustu þá lærdóma sem draga má af gagnrýninni innri úttekt á frammistöðu samtakanna á Sri Lanka þegar stjórnarher Sri Lanka gekk á milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum Tamil Tígra árið 2009.   

Susana Malcorra skrifstofustjóri (Chef de Cabinet) Ban Ki-moon framkvæmdastjóra SÞ kynnti skýrsluna formlega ásamt Charles Petrie, oddvita rannsóknarnefndarinnar á blaðamannafundi í New York í gær (15. nóvember). Malcorra sagði að í hönd færi “djúp innri skoðun" og að hópur háttsettra embættismanna yrði skipaður til að finna leiðir til úrbóta.

Skýrsla innri endurskoðunarnefndar komst að þeirri niðurstöðu að “atburðirnir á Sri Lanka fælu í sér alvarlega vanrækslu” en Sameinuðu þjóðirnar hefðu ekki brugðist við þegar teikn voru á lofti á síðustu stigum átakanna. “Hundruð þúsunda óbreyttra borgara liðu fyrir þetta í blóra við grundvallarhugsjónir og ábyrgð Sameinuðu þjóðanna," segir í skýrslunni. Talið er að 40 þúsund manns hafi látist í lokasókn stjórnarhersins.

Malcorra bætti því við að skýrslan væri “skýr sönnun” þess að Ban Ki-moon fylgdi út í ystu æsar stefnu gagnsæis og ábyrgðar. Það væri “sársaukafullt” að viðurkenna mistök en Sameinuðu þjóðirnar gerðu slíkt til þess að bæta frammistöðu sína í framtíðinni í þágu þeirra sem þeim væri ætlað að þjóna.

Mynd: Susana Malcorra og Charles Petrie, oddviti innri rannsóknarnefndar um aðgerðir SÞ á Sri Lanka á blaðamannafundi í New York. SÞ/Rick Bajornas

Ekkert líf á landi

    án skóga