Sunnudagur, 25 febrúar 2018
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Konur í Malí leita liðsinnis heimsins

Mali3

8. nóvember 2012. “Hersetan er mesta harðræði sem íbúar Malí hafa mátt þola. Konur eru sviptar öllum réttindum og hernámsliðið skipar þeim meira að segja hvaða eiginmann þær skulu ganga að eiga,” segir kona frá Timbuktu sem hefur flosnað upp frá heimkynnum sínum. “Það sem verra er konan er gefin fleiri en einum manni gegn vilja sínum. Börn geta ekki lengur gengið í skóla,” bætti hún við.

Vopnaðar vígasveitir öfgamanna hafa náð stórum hluta norður-Malí á sitt vald, þeirra á meðal er Al Kaída í Magreb. Þessar ólíku sveitir hafa sameiginlega á stefnuskrá sinni að innleiða íslömsk Sharia lög sem sérstaklega bitna á konum.

 Nauðganir og hópnauðganir eru stundaðar í bænum Gao að sögn konu sem nýlega flúði þaðan. Hún segir að Íslamistar slái eign sinni á allt.
 “Fólkið býr við hreinustu martröð. Sharia lögum er framfylgt án nokkurra sannana, fólk er grýtt og limir höggnir af. Ungt fólk er þvingað til að ganga til liðs við vígahópana og heilaþvegið til að verða vígamenn í Jihad, heilögu stríði.”

Sameinuðu þjóðirnar telja að 250 þúsund Malíbúar hafi flúið til nágrannaríkja en að auki eru 174 þúsund á vergangi innanlands.

Samtök kvenna hafa gefið út “Ávarp frá konum Malí” til að vekja athygli umheimsins á ástandinu. Jan Eliasson, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hitti hóp um fjörutíu kvenleiðtoga þegar hann var í Malí 20. október síðastliðinn og hlustaði á óskir þeirra og kröfur um lausn deilnanna í landinu.  

 “Konur eru helstu fórnarlömb erfðleikanna sem Malí gengur í gegnum, en þær hafa sáralítið að segja í þeim stofnunum sem komið hefur verið á fót til að leiða landið í gegnum erfiðleikana,” segir  Saran Keïta Diakité, leiðtogi REPSFECO/Mali, friðar og öryggissamtaka kvenna og ein úr fjörutíukvennahópnum sem hitti Eliasson.
Kröfur hópsins eru skýrar: “Við konur úr frjálsum félagasamtökum í Malí…krefjumst eftirfarandi af þeim sem taka ákvarðanir: að í öllum þeim stofnunum sem leita eiga lausna í deilunum og hvað taki við að þeim loknum séu amk 30% kvenna.”

Konurnar lögðu fram lista yfir þá málaflokka sem þær vilja eiga fullnægjandi aðild að og má þar nefna öryggismál, kosningaferli, sáttaumleitanir og samninga en einnig þátttöku í ákvarðanatöku um viðleitni framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna til að greiða fórnarlömbum nauðgana bætur og umönnun þeirra. Þær krefjast einnig að komið verði á sjóði til stuðnings valdeflingar kvenna í Malí.

Varaframkvæmdastjóranum var afhent afrit af ávarpi kvennanna og lofaði hann því að fylgjast náið með málinu. UN Women styður við bakið á konum og ungum stúlkum sem eiga um sárt að binda af völdum átakanna. 

Sjálfbær heimur 2018