Sóun matvæla kemur til kasta þingsins

0
602

 

þing

September 2014. Baráttunni gegn sóun matvæla hefur vaxið fiskur um hrygg. Á sama tíma og öflug fjölskylduhátíð var haldin í Hörpu bárust þau tíðindi að þingmenn úr öllum flokkum hefðu lagt fram þingsályktunartillögu til stuðnings málefninu.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni felur Alþingi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að „skipa starfshóp sem hafi það markmið að mæla og greina umfang matarsóunar á Íslandi og leggja fram tillögur um aðgerðir til að draga úr matarsóun.“
Stefnt er að því að áætlun um aðgerðir til að draga úr matarsóun liggi fyrir á haustþingi 2016.

Flutningsmenn tilllögunnar eru úr öllum stjórnnmálaflokkum en fremst á meðal jafningja er þingkona Bjartar framtíðar, Brynhildur Pétursdóttir. Það er sennilega ekki tilviljun því hún hafði skrifað greinar á um málefnið á undanförnum árum í Neytendablaðið.
„Ég hef því grúskað í þessu um hríð og fyrst ég er komin á Alþingi fannst mér tilvalið að vinna að málinu héðan,“ segir Brynhildur Pétursdótir. „Ég held að mál þokist helst í rétta átt ef þrýstingurinn kemur frá sem flestum stöðum. Þessi áhugi og vakning sem er hér á landi skiptir miklu máli og ég vona að þessi tillaga fái góða meðferð í þinginu og gaman að fá fólk úr öllum flokkum á málið.“

Í tillögunn er bent á að grasrótar- og félagasamtök hafa látið sig matarsóun varða og það sé kominn tími til að stjórnvöld taki málið alvarlega, afli gagna um umfang sóunarinnar, hvar hún eigi sér stað, og móti stefnu um það hvernig draga megi úr matarsóun hér á landi.

Auk Brynhildar Pétursdóttur eru flutningsmenn nafna hennar, Brynhildur S. Björnsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Páll Valur Björnsson, Óttarr Proppé, Svandís Svavarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Elín Hirst,
Frosti Sigurjónsson og Birgitta Jónsdóttir.